AyCayia er orðinn að veruleika veiii! Ég hef beðið eftir þessum bjór af mikilli óþreygju núna í næstum því heilt ár, samstarfsbjór Borgar og Cigar City Brewing, einu farsælasta brugghúsi Bandaríkjanna og í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Bjór þessi á sér heilmikla sögu, sögu sem hefst í lok september 2015 með einni af þessum hugdettum sem stundum bara detta í kollinn. Ég var á þessum tíma á leið á bjórhátíð í London, Route CBC til að smakka bjór og ræða við bjórsmiðina eins og menn gera jú á svona hátíðum. Ég var mjög spenntur því hátíðinni var skipt upp í nokkra staði eða “event” með mismunandi „thema“, á einum staðnum var amerískt thema, bara bjór og bruggarar frá nokkrum af bestu brugghúsum Bandaríkjanna á heilum 50 krönum takk fyrir , við erum að tala um Funky Buddah, Jake Wakefield, Lost Abbey, The Other Half og svo Cigar City ásamt fleirum. Frábært tækifæri til að kynnast þessum brugghúsum betur. Til gamans má nefna að guttarnir frá Borg voru einnig á þessari hátíð með bjórinn sinn á norrænum event og slóu auðvitað rækilega í gegn.
En að hugmyndinni, ég hafði laumað tölvupósti á Joey Redner, stofnanda Cigar City,fyrir ferðina þar sem ég eiginlega mælti mér mót við þessa kappa á hátíðinni. Við hittumst svo fyrir rest á CBC og ræddum málin yfir góðum bjór, eða bjórum…allt of mikið af bjórum reyndar en það er önnur saga og reyndar mjög skemmtileg en skoðum það síðar. Mig langaði nefnilega að reyna að fá Cigar City til landsins að brugga bjór með íslensku brugghúsi og þar sem Borg er í miklu uppáhaldi hjá mér var borðleggjandi að bera það undir Óla Rúnar og co hjá Borg við sama tækifæri. Viti menn, Joey tók vel í hugmyndina og Óli og félagar sömu leiðis. Á þessum tíma var ég ekki búinn að koma mínu eigin brugghúsi á laggirnar, annars hefði þetta líklega getað orðið Cigar City/nano collab, eða hvað, æ ég veit ekki? En eftirleikurinn var eins og spennandi framhaldssaga því eftir að hafa leitt þessar hetjur saman via tölvupóst fylgdist ég með bjór verða til á prenti í gegnum bréfasamskiptin milli Wayne bruggmeistara Cigar City, Stulla, Árna og Valla. Það er ævintýralegt að fá að vera fluga á vegg og fylgjast með álíka snillingum í bjórgerð ræða humla, ger og bjórstíla og kasta hugmyndum sín á milli, hugmyndum sem svo loks enda með ákvörðun og fyrir rest bjór. Við erum að tala um tugi pósta þar sem hvert smáatriði var rökrætt og endurskoðað og svo rökrætt aftur áður en næsta atriði var tekið fyrir. Það er afar sjaldgæft að sjá svona mikinn undirbúning fyrir samstarfsbjór. Ég var sérsteklega spenntur þegar menn ræddu humlana, við erum að tala um humalprófíl sem maður hefur bara ekki séð í bjór áður. Það fór hamingju straumur um mann þegar Wayne fór að tala um öll þessi suðrænu humlaafbrigði, tegundir á borð við Azacca, Lemon Drop og Pacific Jade ásamt haug af öðrum spennandi humlum. Listinn endaði loks í Equinox, El Dorado, Eureka, Calypso, Mandarina Bavaria ásamt þekktum félögum Citra, Mosaic og Magnum. Þetta er dásamleg upptalning þó ég viðurkenni að þekkja bara örfáa humla á listanum. Kannski maður prófi eitthvað af þessu í næsta brugg?
En allt endaði þetta svo með uppskrift sem á blaði hljómaði einfaldlega eins og fullkomið listaverk og nú er svo loks komið að því að bragða á þessu meistarastykki.
Nafnið Aycayia er eiginlega eitt og sér stórkostlegt, maður einhvern veginn veðrast allur upp og langar að smakka þennan drykk hvað sem það kostar. Aycayia er nafn á goðsögn frá karabíska hafinu, „sú með hina fögru rödd“ sem var lostafull hafmeyja þekkt fyrir að tæla til sín karlmenn með fallega sköpuðum líkama sínum og loforðum um góðar stundir en svo rændi hún þá í staðinn frjálsum vilja. Já ég er ansi hræddur um að bjórinn beri nafn með réttu, suðrænn og tælandi sem rænir mann í raun öllu viti ef maður fer ekki varlega.
Aycayia er vægast sagt stórkostlegur bjór, við erum að tala um suðræna hamingjubombu á formi 7% IPA. Í glasi er hann gylltur og mattur með dúnamjúkan froðuhaus. Um leið og maður hellir honum finnur maður tælandi angan af suðrænum ávöxtum, ananas, perur og mango til að nefna eitthvað. Í munni er hann hreint út sagt dásamlegur, spriklandi gosið lífgar strax upp á bragðlaukana og gerir þá klára fyrir humlaseríuna sem mynda flókið samspil ávaxta, beiskju og blóma. Hér má finna heila ávaxtakörfu af suðrænum ávöxtum af öllum stærðum og gerðum. Ég fer ekki nánar út í það því hér verða menn að lofa sínum eigin bragðlaukum að ákveða nákvæmlega hvaða ávexti þeir pikka upp en það er einmitt svo einstaklingsbundið. Sætan er langt í frá að vera of mikil því bjórinn er nokkuð þurr á móti. Eftirbragð er langt og seyðandi og manni einhvern veginn er alveg sama þó maður eigi eftir að tapa áttum. Hver sopi kallar á þann næsta en þannig á það líka að vera.
Hér erum við með dæmi um bjór sem að mínu mati gengur upp frá A til Ö, nafnið, merkimiðinn og drykkurinn, allt pottþétt. Þvílíkur bjór! Það verður slegist um þennan þegar hann dettur í ÁTVR.
Bakvísun: Næsti bjór með framandi humlum. – nano
Bakvísun: Ó Borg mín (eða mitt) Borg! – nano