Gæðin felast í dósinni!

punk-ipa-canÉg má til með að hrósa Járn og Gler fyrir þetta, Punk IPA í dósum!  Já ég sagði í dós og já ég sagði Járn og Gler.  Fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er kominn tími á að uppfæra upplýsingabankann en Járn og Gler flytur inn nánast allt eðal stöffið sem við erum að sjá á börunum ss Skúla, Microbar og Bjórgarðinum ofl.  Mikkeller flytur sitt inn sjálfur en stundum taka þeir líka perlur frá Járn og Gler.  Það eru þeir bræður Andri Þór Kjartansson og Ingi Már Kjartansson sem við getum þakkað að úrvalið hér á landi er svona flott.  Klapp á bak fyrir það strákar!

Dósabjór er vel þekkt fyrirbæri, menn tengdu þetta hér í denn við „lagersull sem má drekka hvernig sem er“ (sem reyndar er ekki rétt).  Fínan bjór átti að drekka í gleri því það er miklu betri umbúðir og varðveitir gæðin.  Þetta er það sem margir halda/héldu, ég viðurkenni það sjálfur að þegar ég byrjaði á þessu öllu saman þá var glerið það eina sem mátti koma í minn ískáp.  Svo hefur maður jú lært ýmislegt, m.a. það að dósin varðveitir bjórinn mun betur, fyrir það fyrsta kemst akkúrat ekkert ljós í bjórinn en ljós hefur skelfileg áhrif á bjór, þið sjáið t.d. að allur bjór er í grænum eða brúnum flöskum ekki satt?  Og svo ég hafi það nú með hér þá eru brúnu flöskurnar betri hvað þetta varðar.  Hitt er svo að kolsýra og það sem er kannski mikilvægara humalkarakterinn heldur sér betur í dósinni á meðan flöskurnar leka hægt og rólega.

allday_can_final_revisionÞetta eru handverksbrugghúsin löngu búin að átta sig á en hafa farið varlega í það að breyta yfir í dósirnar bæði af því að það er kostnaðarsamt að breyta og svo er almenningur hræddur við dósirnar og tengir þær við lélegan lágæðabjór.  Bruggarar eru hins vegar farnir að berjast gegn þessu núna enda er þeim í mun að koma bjórnum sínum til fólks á sem bestan máta.  Því fagna ég því að nú sé Punk IPA kominn í ÁTVR í dós og hvet ég fólk að velja heldur dósina.  Muna bara að drekka ekki beint úr dósinni því þá er hætt við að menn finni ögn álbragð með.  Ég vil svo taka fram að Founders All Day IPA hefur verið fáanlegur í dós um nokkurt skeið og hann er meira að segja ódýrari í dósinni.  Sem sagt þú BORGAR MINNA FYRIR MEIRI GÆÐI!

Gréta frá Borg endurlífguð!!!

BalticStrákarnir hjá Borg hafa svarað kalli almúgans og ákveðið að endurvekja Grétu þennan merka baltic porter frá 2014. Þetta er skemmtilegt því nú hafa þeir lagt línurnar og sýnt fordæmi ekki satt?  Uss hvað menn eiga eftir að suða í þeim um fleiri fornar hetjur.  En alla vega, hér er það sem ég skrifaði um Grétu á sínum tíma, gaman að fara svona aftur í tíman, hér var t.d. snillingurinn Árni nýkominn til þeirra á Borg! 

„Maður er orðinn allt of góðu vanur held ég þegar maður er farinn að bíða óþolinmóður eftir næsta bjór frá Borg en nú er hann loksins kominn eða bara rétt handan við hornið.  Mér skilst að hann komi á barina í kvöld og svo í vínbúðirnar í næstu viku líklegast.  Ég held að ég sé ekki að fara rangt með heimildir þegar ég segi að þetta sé jafnframt fyrsti bjórinn sem kemur frá Borg eftir að Árni Long áður ÖB bruggari bættist í hópinn en hvernig sem er fyrsti eða annar þá skiptir það svo sem ekki máli, þetta er allt gott.  Ég býð bara Árna hér með formlega velkominn í hóp þeirra sem mega gleðja bragðlauka mína.

Hér erum við alla vega að tala um oktoberfestbjórinn þeirra Borgara sem þeir kalla Grétu, þetta er 7.3% baltic porter sem vel er til þess fallinn að þroska dálítið á flösku með öllum hinum stóru körlunum frá Borg. Það er bara svo gaman að sjá hvernig þessir bjórar breytast og dafna með tímanum.  Gréta fær líklega nafn sitt úr ævintýrinu um þau salgætissjúku systkin Hans og Grétu en tengingin við bjórinn er líklega sú að í hann eru notaðar 4 gerðir korns og auðvitað ger og vatn sem er jú uppistaða brauðs. Það er því heilmikið brauð í þessari kerlingu ef svo má segja, brauðmolar?

Porter er ekki minn uppáhalds stíll en ég dett þó annað slagið niður á mjög góða slíka, sjáum t.d. Myrkva frá Borg, og auðvitað skipta aðstæðurnar máli líka.  Gréta er reyndar ekki venjulegur porter, Gréta er baltic porter sem þýðir að maður fær alveg slatta af áfengisprósentum með í kaupunum.  Gréta er því næstum því imperial porter þó svo að hún kannski nái ekki alveg þeim stalli.  Menn vita sem þekkja mig að ég er sérlega hrifinn af öllu sem heitir imperial eða double eitthvað og því hef ég verið dulítið spenntur fyrir þessari kerlu hér.

Baltic porter er upphaflega kominn frá hinum baltnesku ríkjum svo sem Lettlandi, Eistlandi, Litháen, Póllandi og jafnvel Rússlandi og Svíar hafa einnig verið bendlaðir við stílinn. Á 18. öld barst hinn enski porter til þessara ríkja og svo hafa menn farið að gera sína eigin útgáfu.  Þannig varð baltic porter til sem túlkun þessara ríkja á stílnum.  Stíllinn er þó ólíkur hinum enska porter hvað varðar áfengismagn sem getur orðið töluvert og er því kannski frekar hægt að líkja stílnum við hinn rómaða Russian Imperial Stout, kannski heldur langsótt?  Baltic porter þarf alls ekki að vera af gerðinni öl eða yfirgerjaður heldur er eiginlega algengara að um lager sé að ræða.  Ég veit, þetta hljómar ekki alveg rétt eða hvað?  Þetta er mjög maltaður stíll, mikið af korni í honum og því oft nokkuð sætur og þægilegur.  Þrátt fyrir háa áfengisprósentu  þá skortir hann þróttinn sem maður fær í frændum hans imperial stout.

„Árstíminn fyrir þennan bjór er einmitt núna að mínu mati, haustið, september/oktober, það er farið að kólna í veðri sem kallar á aðeins þyngri bjór og fleiri prósentur en þó er maður ekki alveg tilbúninn í hardcore imperial vetrarbjórinn.“ Græni Karlinn

Gréta er falleg í glasi, kolsvört og glæsileg með fallegan froðuhaus sem lætur sig þó hverfa nokkuð fljótt.  Í nefi er lítið að gerast, korn, malt, brauð og svo aðeins dökkt súkkulaði?  Í munni hins vegar lifnar hann allur við og stuggar aðeins við bragðlaukunum með kitlandi gosi og humlum.  Beiskja í hófi en er þarna þó.  Hann er nokkuð mildur á tungu, það er ögn hiti í honum frá áfenginu sem kemur virkilega vel út, haustlegt!   Skrokkur er meðal til mikill en ekki þó imperial þéttleiki.  Hann er alls ekki eins sætur og ég bjóst við, maltið er þó þarna og gefur ögn karamellutón, örlítið ristaður fílingur og svo eins og einhver lakkrískeimur í lokinn.  Allt kemur þetta mjög vel út og vekur því alveg réttu lukkuna.
Þetta er bjórinn til að drekka í bústaðnum á pallinum meðan sólinn sest og haustlaufin fjúka um í öllum regnbogans litum.  Þetta er ölið sem maður drekkur eftir erfiða vakt á Landspítalanum til að róa taugarnar rétt fyrir háttinn og þetta er bjórinn sem passar með lambinu, grillmatnum og stóra flotta djúsí BBQ borgaranum.  Þetta er bara nokkuð flottur og skemmtilegur bjór.  Svo er spurning hvenær Hans kemur út?  Varður það oktoberbjórinn að ári eða bara næsti bjórinn frá Borg?

Græni Karlinn : Skemmtilegur bjór, kolsvartur en ekki þannig á bragðið, mun léttari og einfaldari bjór en maður bjóst við.  Aðeins súkkulaði og lakkrís sem kemur skemmtilega út og svo er þessi þægilegi hiti í honum.  Nokkuð sáttur bara!

Já svo mörg voru þau orð….ég er enn að bíða eftir Hans!!

Gísli Súröl frá Borg!

20160824_174028Það hefur lítið farið fyrir nýjasta sköpunarverki Borgar brugghúss, Gísla Súröl sem þeir félagar Stulli, Árni og Valli sendu frá sér á sumarmánuðum.  Gísli sem er nr 42 í röðinni er 4% súröl sem hentar vel til sumardrykkju.  Tengingin við nafnið ætti að vera augljós.  Súrbjór er dálítið krefjandi bjórstíll, þetta er ekki bjórinn sem þú prófar sem þín fyrstu skref úr öruggu umhverfi lagerbjórsins nema að þú sért með ríka ævintýraþrá og opinn huga.
Við Íslendingar höfum ekki haft mikil kynni af súrbjór í gegnum aldanna rás en við erum samt sem áður alls engir viðvaningar þegar kemur að súrum drykkjum.  Mysa hefur t.d. verið drukkin hér á landi sem svaladrykkur frá tímum Víkinga þótt yngri kynslóðir séu fyrir all nokkru hættar að leggja sér hana til munns.  Mysa inniheldur m.a. mjólkursýrugerla (Lactobacillus tegundir) sem gera hana svona súra og sérstaka, en í Gísla Súröl eru einmitt notaðar svipaðar bakteríur úr Lactobacillus fjölskyldunni ásamt villigersveppum af Brettanomyces ættum.  Lactobacillus gerir bjórinn súran og mysukenndan á meðan Brettanomyces gefur af sér bragð sem mjög erfitt er að lýsa.  Menn verða einfaldlega að smakka bjór sem er „brettaður“ eins og stundum er sagt til að átta sig á því bragði.  Stundum líkt við leður, háaloft eða fúkkalykt.  „Funky“ er einnig orð úr bjórheiminum sem notað er yfir þetta fyrirbæri.

Nú hugsa sumir, bjór sem er súr er skemmdur bjór. Að mörgu leiti er það rétt, bjór sem ekki á að vera súr, ss lager, pale ale ofl má alls ekki vera súr því þá er hann skemmdur, þ.e.a.s. það hefur komist sýking í hann.  Með sýkingu er þá átt við að villtar örverur úr umhverfinu hafa náð bólfestu í bjórnum og eru byrjaðar að sýra bjórinn.  Þegar svo er komið er um sýktan, skemmdan bjór að ræða.  Það er því í raun hægt að segja að súrbjór sé viljandi skemmdur rétt eins og á við um mygluosta t.d.

Ég mæli með að drekka Gísla fyrst ískaldan, sérstaklega ef menn eru að prófa súrbjór í fyrsta sinn.  Svo er alltaf skemmtilegra að bragða bjór aðeins heitari síðar því þá koma allar bragðflækjurnar betur fram.  Gísli er fallegur í glasi, mattur með gulum blæ, froðan hverfur samt alveg um leið. Í nefi má finna eins og sítrónukeim og mysu, ekki mikið „funk“.  Léttur í munni og auðvitað súr á tungu og tekur létt í kinnar.  Mjólkurgerillinn er áberandi og þannig minnir hann nokkuð á Mysuna en það fer lítið fyrir brett gerinu.  Ögn sætt eftirbragð og þægilega kolsýrður.  Mjög svalandi og skemmtilegur bjór sem vert er að smakka.  Muna svo að dæma aldrei nýjan bjór af fyrstu kynnum,alltaf að smakka aftur.

 

Punk Wanna B þurrhumlaður.

Hvað gerist ef þú tekur bjór, fjarlægir allt vatn, ger og bygg? Jú þú færð glas fullt af humlum.  Það er samt önnur saga…þetta glas af 5 mismunandi humlum er að fara út í Punk Wanna B sem kúrir í gerskápnum á nano.  Hann er aaaaðeins sterkari en hann átti að verða 5.9% en hann bragðast afskaplega vel.

Planið er að breyta aðeins til og þurrhumla í 3 skrefum.  Tvö síðustu á kút.  Hlakka til að smakka þetta kvikindi 🙂

Styttist í formlega „opnun“ nano!

 

Nú er allt að verða klárt fyrir opnun nano sem er líklega minnsti brewpöbb veraldar.  Það er samt nóg eftir að gera.   Ef einhver á barstóla, helst úr við sem hann vill losna við eða selja mér fyrir lítinn pening þá má endilega láta mig vita!

Stefni á að opna formlega þarnæstu helgi, þá ætti líka nýja batchið af Punk Wanna B að vera klár á dælu og svo er enn til slatti af Paradox Imp. Stout.  Það skal tekið fram svona svo enginn misskilningur eigi sér stað að þetta er jú bara gert til gamans og eigin nota.  Það er samt alltaf gaman að fá gesti til að meta afraksturinn ef einhver á leið hjá!

nano club, gamalt og nýtt

20160811_201815Við kvöddum sumarið um daginn í nano club með ljúffengu öli.  Sumt var nýtt en annað áður smakkað.  Fear of Ghosts frá Stillwater var bjór sem ég dröslaði með mér frá New York í byrjun sumars.  Reyktur Farmhousee Wheat Ale og alveg ooofsalega góður.  Reykurinn var hins vegar alveg hulinn en bjórinn var mildur, létt súr og notalegur.  Allir sáttir.  Svo er Mango Magnifico frá snillingunum í Founders að gera stórkostlega hluti.  Þvílík snilld að setja habanero chilly í ferskan mangobjór.  Léttur bruninn frá habanero kemur svona líka afskaplega vel út í eftirbragði og skapar fullkomið jafnvægi.  10% stórhættulegur karl sem þarf reyndar að kaupa núna ef menn ætla að smakka.  Bjórinn tilheyrir nefnilega svokallaðri back stage series sem inniheldur bjór sem er aðeins bruggaður í eitt skipti í takmörkuðu upplagi og svo bara ekki meir nema eitthvað sérstakt komi til.  Bjórinn í back stage seríunni er oft á tíðum afar fríkaður og út úr öllum boxum.  Mæli með að fólk sérpanti þetta frá Járn og Gler og prófi.  Blushing Monk er einnig úr þessari seríu og er stórskemmtilegur sumarbjór en heldur til væminn fyrir minn smekk.  Stelpurnar og Darri voru reyndar mjög ánægð með hann.  Góður bjór en ég hef kannski fengið of mikið af honum þegar ég var með hann á dælu á Skúla Craft Bar á sínum tíma?

Mikkeller Beer Geek Vanilla Shake þarf svo varla að kynna eða hvað?  Geggjaður imp. stout með vanillu.  Í sætari kantinum vissulega en ekki of væminn fyrir minn smekk.

Surturinn í besta nýja brugghúsi heims 2014, Edge Brewing!

20160719_200645Þegar ég sá um Skúla Craft Bar hér áður þá lagði ég mikið upp úr því að komast yfir besta bjór sem völ var á til að bjóða landsmönnum á barnum.  Sælla minninga tókst mér þannig að fá hingað til lands Arizona Wilderness brewing alla leið frá Arizona í Bandaríkjunum en AZ var á þeim tíma valið besta nýja brugghús veraldar (2013) á Ratebeer.com (sem er stærsta bjórsamfélag heims).   Þetta var aldeilis frábært því til að smakka bjórinn þeirra hefði maður annars þurft að ferðast alla leið til Arizona á barinn þeirra því þeir settu á þeim tíma ekkert á flöskur eða dósir og maður lifandi hvað bjórinn var góður.  Eftir þetta fór ég á flug, ég hafði m.a. upp á 10. besta nýja bruggúsi  veraldar 2014 skv Ratebeer, norsku snillingana í 7 Fjell sem tóku eftirminnilegt tap takeover á Skúla og á sama lista var ameríska brugghúsið The Other Half brewing sem var í 7. Sæti.  Þeir hættu reyndar við komuna á síðustu stundu sökum anna því miður.  

Á þessum merka lista var svo auðvitað einnig besta nýja brugghús veraldar 2014, Edge Brewing í Barcelona.   Ég spjallaði mikið við þá via email á síðasta ári í þeirri von að fá þá á klakann en þeir eru bara svo vinsælir og drekk hlaðnir verkefnum að þeir höfðu ekki tök á því.  Það var því mjög skemmtilegt þegar við fjölskyldan ákváðum að heimsækja Barcelona núna í sumar (2016).  Ég setti mig aftur í samband við „allt í öllu“ manninn þeirra Robin og við mæltum okkur mót.

Það var líklega heitasti dagurinn okkar þarna úti, 32 stig og mikil molla.  Ég var eiginlega ekki að nenna að standa í því að dröslast þvert yfir borgina í neðanjarðarlest þetta kvöld.  Hitinn í neðanjarðarlestakerfinu er enn meiri en úti í sólinni.  Ég lét mig þó hafa það þrátt fyrir mikla vanlíðan.  Ég fann fyrir rest brugghúsið en það lætur ekki mikið yfir sér, ein lítil hurð með logoinu þeirra sem var reyndar læst.  Ég hélt að þeir væru með bar eða opið taproom.  En alla vega ég fann svo einhverjar bakdyr og bankaði og var hleypt inn.  Þar fann ég Robin sem er ósköp vinalegur enskur bjóráhugamaður sem búið hefur í Barcelona síðustu 12 árin.  Áður en hann var ráðinn til starfa hjá Edge Brewing sá hann um bjór túra um borgina og er því afar góður félagsskapur fyrir bjórnördinn.  Robin er einn af þessum rólegu „chilluðu“ gaurum sem hafa þessa þægilegu nærveru.  „Þetta reddast yfirbragðið“ sem ég sjálfur vildi óska að ég hefði snefil af.  Í dag sér Robin um allt og ekkert hjá Edge og er í raun maðurinn til að tala við vilji maður dansa með Edge.  Ég var þarna svo sem í presónulegum erindagjörðum en ég tók samt með mér sýnishorn af því besta sem gerist í íslenskri bjórgerð, Borg brugghús auðvitað.  Ég tók með mér Leif, Úlf, Surt 30 og Garúnu til að kynna þessum gaurum fyrir íslenskri bjórmenningu.  Ég átti ekkert Nano brugg á flöskum sko. 20160719_190104

Edge Brewing er í raun amerískt brugghús á spænskri jörð, stofnað árið 2013 af  tveim amerískum heimabruggurum Alan Sheppard og Scott Vanover.  Allur tækjabúnaður er innfluttur frá Ameríku og áherslan er lögð á amerískan bjór eins og þið hafið kannski getið ykkur til um. Sean McLin er svo þaulreyndur amerískur bruggari sem síðar var ráðinn til Edge brewing til að koma þeim á kortið. Sean er  virkilega skemmtilegur náungi með mikið sjálfstraust og hæfileika og hann hefur mjög gaman að því að segja frá því sem á daga hans hefur drifið.  Ég er að meina þetta á  jákvæðan hátt, virkilega gaman að hlusta á hann og hann er með skoðanir á öllu og virðist vera mikill spéfugl.  Þetta er gaurinn sem þú ferð með á jammið og það verður ekki leiðinleg stund.   Sean er mjög fixeraður  á hreinleika og ferskleika , ferskir humlar, ger og hráefni eru númer eitt, tvö og þrjú hjá Edge Brewing en það er kannski nákvæmlega það sem gerir þetta brugghús svona farsælt?

Ég byrjaði á að smakka nokkra bjóra frá þeim af krana en þeir eru með smakksal (tasting room) í miðju brugghúsinu.  Þetta er ekki tasting room sem þú getur bara gengið inn í af götunni heldur þarf að panta pláss fyrirfram.  Þeir eru með 10 dælur og svo auðvitað allt sem þeir framleiða á gleri en þeir flytja mest af sínum bjór úr landi, t.d mikið til Danmerkur.  Robin hafði miklar áhyggjur af krönunum og hann var stöðugt að úða á þá sótthreynsiefni og tæma línurnar á meðan við spjölluðum því ávaxtaflugurnar fara strax í bjórinn sagði hann og bjórinn súrnar fljótt í hitanum.  Bjórinn var stórgóður eins og von var vísa.  Í raun allt sem ég fékk þetta kvöld og það var ekki lítið.  Hoptimista, IPA bjórinn þeirra sem var valinn meðal topp 50 bestu bjóra veraldar á Ratebeer var að sjálfsögðu á meðal þess sem ég smakkaði þarna.  Ofsalega flottur bjór og á verðlaunin fyllilega skilið en ég var þó hrifnastur af öllum seasonal bjórunum þeirra, léttu súru ávastabjórunum sem voru afar kærkomnir í hitamollunni. 

20160719_201144Eftir stutta kinningu á Borg brugghús bauð ég þeim að smakka, við byrjuðum á Úlfi sem Sean var sérstaklega ánægður með enda flaskan bara þriggja vikna gömul og því eins ferskur IPA og þeir gerast.  Úlfur minnti Sean talsvert á session IPAinn þeirra Ziggy sem er mjög þægilegur IPA en töluvert minna krefjandi.  Leifur var næstur í röðinni en hann olli mikilli lukku meðal nærstaddra og var bragðið krufið til mergjar.  Þegar hér var komið sögu viðurkenndu þeir félagar Sean og Robin hálfpartinn að þeir hefðu ekki átt von á svona góðum bjór.  Þá dró ég fram Surt 30 og ætlaði allt um koll að keyra þegar ég reyndir að útskýra nafnið og svo innihaldið.  Sean hélt vart vatni yfir þessu en hann fékkst næstum ekki til að smakka.  Hann gerði það þó fyrir rest og þótti honum bjórinn vandaður og skemmtilegur.  Reyndar var þetta rúmlega ársgömul flaska og því taðreykurinn farinn að missa töluvert máttinn sem er miður því ég hefði viljað sjokkera þá enn meira.  Við lokuðum svo dæminu með Garúnu og þá var þetta innsiglað, Borg er komið á blað hjá þeim félögum. 

Já þetta var skemmtilegt kvöld og áhugavert að heyra frásagnir Seans og hans álit á bjórveröldinni. Við ræddum einnig í gamni að gaman væri að fá þá til Íslands einhvern tímann, og ég bauð þeim meira að segja að gera með mér collab á nano en það þótti of lítið fyrir þá til að ferðin borgaði sig en eftir því sem leið á kvöldið fóru alls konar hugmyndir að hljóma áhugaverðar.  Það er bara aldrei að vita hvað gerist í framtíðinni, væri alla vega gaman að sjá bjórinn þeirra á litlu eyjunni okkar.

Fyrsti imperial stoutinn á nano

Jább…þessi er farinn að flæða, 8.7% imperial stout.  Enn og aftur er þetta klónn úr BrewDog bókinni, Paradox serian.  Hann átti reyndar að verða 10% en þetta er útkoman.  Engu að síður er ég mjög ánægður með minn fyrsta imperial stout.  Þetta er liður í að finna góðan base fyrir tunnutilraunir ofl.   Er með 19 lítra af þessu á dælu og ég vil fá feedback…bankið uppá hjá mér í dag…er að vinna í skúrnum20160803_143907.jpg

Punk Wanna B kemur vel út

20160801_130924 (2).jpg

Ég gerði enn eina uppskriftina úr BrewDog bókinni um daginn, Punk IPA klón.  Gertími var rétt um 11 dagar og svo henti ég honum á kút og þurrhumlaði í kútnum á meðan ég fór erlendis í 12 daga.  Útkoman er flott og má nú smakka Punk Wanna B á krana á Nano hjá mér.  Reyndar komu upp smá vandræði sem ég er að skoða, eitthvað aukabragð sem ekki var fyrst er að gera vart við sig…þetta er eitthvað sem vinir mínir finna ekki svo sem en þar sem ég er nú aðalega að brugga fyrir sjálfan mig þá er þetta ekki nógu gott.  Ég hef verið að velta þessu fyrir mér, ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist, þ.e.a.s ég er ánægður með ölið en svo daginn eftir eða svo er hann bara ekki eins góður.  Gunnar Óli (snillingur í bjór og bruggi) er að spá í súrefnisáhrifum og það er vert að skoða.  Við ræddum einnig um mögulega áhrif  frá geri sem hefur þyrlast upp.  Það gæti nefnilega vel verið.  Ég hef því ákveðið að láta kútinn standa í tvo daga og sjá hvort þetta lagist.  Á þeim tíma ætti ger í upplausn að hafa botnfallið.  Er einhver þarna úti annars með hugmynd?