Borg hefur ákveðið að endurvekja Grétu baltic porter frá 2014 sem svar við háværum röddum pöpulsins sem er bara gott mál því nú fær maður að sannreyna hvort gott sé að geyma og þroska Grétu. Ég man nefnilega að menn voru að velta þessu fyrir sér á sínum tíma og svarið var í raun einfalt…hver veit, prófaðu bara! Ég hafði amk ekki hugmynd um hvernig Gréta myndi þroskast. Mér tókst að geyma eina flösku.
Nú veit ég ekki alveg en mig grunar að uppskriftin sé ekki alveg nákvæmlega sú sama og síðast en alla vega þegar ég ber saman nýju og gömlu Grétu kemur eftirfarandi í ljós:
Gamla Gréta er einhvern veginn mun skemmtilegri í nefi, við erum að tala um sætan vínkeim, kirsuber jafnvel og svo rúsínur, mjög tælandi og elegant. Í nýju Grétu vantar dálítið fúttið í nefi en við erum þó með ögn ristað korn, súkkulaði og eins og þroskaðan banana?
Í munni hins vegar er hin nýja Gréta mun skemmtilegri, miklu líflegri og hressilegri. Kaffi, ristað korn og dökkt súkkulaði, allt eftir bókinni. Mjög flottur porter með notalega fyllingu. Gamla Gréta hefur hins vegar ekki elst nægilega vel, hún hefur tapað dálítið karakternum. Ristin er mun minni og sætur maltkeimurinn er alls ráðandi, minnir dálítið á bock. Það vantar einhvern vegin samheldnina ef ef svo má að orði komast.
Þetta er flott framtak hjá Borg og bara helvíti vel lukkaður bjór og það var gaman að læra það að Grétu skal ekki geyma heldur njóta hér og nú á meðan færi gefst. Hver veit svo hvaða bjór Borg endurvekur næst ;)…..ég ætla hér með að leggja til Þvörusleiki eða Teresu.
En hvað er baltic porter? Rennum yfir það.
Baltic porter er upphaflega kominn frá hinum baltnesku ríkjum svo sem Lettlandi, Eistlandi, Litháen, Póllandi og jafnvelRússlandi og Svíar hafa einnig verið bendlaðir við stílinn. Á 18. öld barst hinn enski porter til þessara ríkja og svo hafa menn farið að gera sína eigin útgáfu. Þannig varð baltic porter til sem túlkun þessara ríkja á stílnum. Stíllinn er þó ólíkur hinum enska porter hvað varðar áfengismagn sem getur orðið töluvert og er því kannski frekar hægt að líkja stílnum við hinn rómaða Russian Imperial Stout,kannski heldur langsótt? Baltic porter þarf alls ekki að vera af gerðinni öl eða yfirgerjaður heldur er eiginlega algengara að um lager sé að ræða. Ég veit, þetta hljómar ekki alveg rétt eða hvað? Þetta er mjög maltaður stíll, mikið af korni í honum og því oft nokkuð sætur og þægilegur. Þrátt fyrir háa áfengisprósentu þá skortir hann þróttinn sem maður fær í frændum hans imperial stout.
Takk fyrir mig Borg
Bakvísun: Ó Borg mín (eða mitt) Borg! – nano