Ég held áfram í New England Pale Ale stílnum, nýjasta útgáfan kominn á kút og flöskur. Ég notaði 1L af fersjumauki og 450g af mjólkursykri til að fá fram mjúka mjólkuráferð án þess að sæta bjórinn um of. Það fóru svo 400g af humlum í þetta helvíti, Citra og Simcoe. Kostaði sitt en vonandi þess virði en þessi bjór er til þessa dýrasti bjór sem ég hef bruggað. Myndina gerði sonur minn Ísak Leó sem er algjör snillingur í þessu. Nokkuð flott bara!
Bjórinn mattur eins og ferskjusafi í glasinu alveg eins og hann á að vera, í nefi eru ferskir humlar og ögn ferskja. Í munni er mjúkur og fullur með þægilegt spriklandi gos. Humlarir taka dálítið í fyrstu en svo koma fram allt það dásamlega frá humlunum, ávextir af suðrænum toga og loks látlaus en skýr ferskjukeimur. Já ég held svei mér þá að ég hafi næstum náð þessu, ég verð að segja næstum því annars er ekkert gaman að þessu. Svo er bara að sjá hvað gerist en til þessa hefur bjórinn minn verið mjög flottur í nokkra daga en missir svo einhvern veginn karakter. Ég hef rætt þetta við einn magnaðasta bruggara okkar Íslendinga, Stulla hjá Borg og ætlar hann að líta við við tækifæri og vonandi spotta hvað er að.
Á nördanótunum (mest megnis fyrir mig bara) þá er þetta fyrsti bjórinn frá Nano sem er bruggaður með pH pælingum í meskingunni. Í fyrsta sinn setti ég humlana út í Whirlpool (hrærði stöðugt í við kælingu til að fá hringiðu). Kælingin fyrir gerjun tók aðeins of langan tíma samt, ætla að reyna að ná þessu niður fyrir 30 mín næst og prófa hop rest til að ná meira úr humlunum. Loks gerði ég cold crash í fyrsta sinn, bara í sólarhring, hálf klúðurslegt samt en ég held að það hafi dregið töluvert úr gerinu í suspension. Hins vegar er hætta á að fá hér súrefni í bjórinn. Þurrhumlun stóð í 4-5 daga með 200g af humlum. Vel á minnst, ég notaði tvo poka af blautgeri í bjórinn….hef ekki gert það áður. Svo var ég svakalega og ekstra varkár með súrefni við átöppun, tæmdi kútinn vel með CO2 og tæmdi svo toppspace í lokinn.
Ég hef fjallað um hin ýmsu brugghús veraldar, bruggús sem mér líkar sérstaklega vel við. Þetta hef ég skrifað um hér á nano, á bjórbók.net á sínum tíma, á Skúla Craft Bar síðunni og www.bjorspeki.com. Ég er hins vegar að átta mig á að ég hef ekki skrifað formlega um okkar besta brugghús, okkar eigið Borg Brugghús nema kannski á formi búta hér og þar í tengslum við nýja bjóra frá þeim og uppákomur. Þegar áhugamál gleypir mann algjörlega getur maður nefnilega stundum verið dálítið blindur á þekkingu náungans og gerir jafnvel bara ráð fyrir að allir viti nákvæmlega hvað Borg er. Borg hefur vissulega verið að láta hressilega til sín taka undanfarið og komið sér á blað bæði hér heima en ekki síst á alþjóðlegum vettvangi, en ég finn þó að enn er fólk þarna úti sem hváir þegar ég tala um nýja bjórinn frá Borg. Þetta þarf að laga, það þarf að boða fagnaðarerendið, Íslendingar verða jú að vita hvað Borg Brugghús er áður en það veit allt um Edge Brewing í Barcelona t.d. Eða hvað?
Alla vega, skundum aðeins yfir þetta! Stutta útgáfan er þessi:
„Borg Brugghús er það besta sem komið hefur fyrir íslenskan ölkúltur í langan tíma að mínu mati, alla vega á eftir að bjórbanninu var aflétt á Íslandi. Það er t.d. Borg að þakka að hægt var að flytja heim frá Danmörku að námi loknu á sínum tíma. Þessi fullyrðing er vissulega aðeins lituð af persónulegum skoðunum pistlahöfundar, „biased“ eins og sagt er, viðurkenni það. Ef við förum aðeins meira hlutlaust yfir þetta þá væri það svona“…
Borg Brugghús var stofnað árið 2010 sem eins konar „leikvangur“ fyrir metnaðarfulla bruggmeistara Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar þar sem þeir gátu fengið útrás fyrir sköpunargleði sína í bjórgerð. Markmiðið var að bæta bjórmenningu Íslendinga. Borg átti þannig að vera hliðstæða hinna svo kallaðra örbrugghúsa eða microbreweries sem hafa átt miklum vinsældum að fagna um heim allan á síðustu áratugum. Sumir töluðu um örbrugghús í risabrugghúsi þar sem aðstaðan er vissulega innan veggja Ölgerðarinnar. Þetta fór fyrir brjóstið á hörðustu bjórnördunum sem vildu meina að ekki væri hægt að tala um örbrugghús í þeim skilningi. Hvað sem því líður, brugghúsið starfar óáreitt og með sína eigin bruggmeistara sem einbeita sér af því að brugga „handverksbjór“ í bruggtækjum sem tileinkuð eru Borg Brugghús. Stóru vinnslusalir Ölgerðarinnar koma þarna ekkert við sögu. En dæmi hver fyrir sig, fyrir mína parta er um að ræða lítið brugghús sem bruggar stórkostlegan bjór og það er jú aðal atriðið.
Fyrsti bjórinn frá Borg kom út í maí 2010, Brio hét hann, þýskur pilsner sem hannaður var í samstarfi við Ölstofu Kormáks og Skjaldar. Þetta var ekki róttækur bjór ef svo má segja en þessi bjór var algjörlega einstakur. Þarna var komið eitthvað nýtt en samt ekki svo framandi. Vinsældir bjórsins jukust jafnt og þétt á árunumum á eftir og hefur hann meira segja unnið til stórra verðlauna á viðurkendum stórmótum erlendis. Í dag er Brio gríðarlega vinsæll hér heima þó hann sé reyndar núna framleiddur í stóru Ölgerðinni og er þannig í raun ekki eiginlegur Borg bjór lengur.
Fyrstu skrefin
Borg Brugghús var stofnað eins og þeir segja sjálfir einhvers staðar, til að bæta bjórmenningu landins. Þeim hefur sannarlega tekist það en frá opnun brugghússins hafa þeir sent frá sér alla vega 44 mismunandi bjóra gróflega áætlað. Á upphafsárum Borgar stigu þeir dálítið varlega til jarðar, fyrst var það Brio, svo kom Austur sem ég reyndar náði aldrei að tengjast, en svo kom Úlfur, elsku Úlfurinn.Fyrsti alvöru íslenski India Pale Ale bjórinn og almáttugur hvað hann var kærkomin sending á þessum tíma þar sem alls ekki var um auðugan garð að gresja í vínbúðinni. Úlfur var í raun eini amerísk innblásni IPA-inn á landinu á þeim tíma. Ég man að ég felldi næstum tár þegar Höskuldur í Bjórskólanum lofaði mér að smakka frumútgáfuna af Úlfi sem reyndar var mun beiskari og meiri bjór en endalega útkoman. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að
„Úlfur er enn í dag einn besti IPA bjór sem menn fá í ÁTVR…..“
……enda oftast alveg brakandi ferskur.
Það er svo sem ekki ætlun mín að rekja allar perlurnar sem Borg hefur skapað í gegnum tíðina en það væri óvirðing við bjórsmiðina að nefna ekki bombur á borð við Giljagaur, geggjaða jólabjórinn sem nú er kominn til að vera. Giljagaur Barleywine er dæmi um bjór sem skemmtilegt er að geyma og þroska í mánuði, ár eða jafnvel áratugi og finna hvernig hann tekur dásamlegum breytingum með tímanum. Þetta er reyndar eitthvað sem Borg brugghús hefur á undanförnum árum í raun innleitt á íslenskan markað, viljandi eða ekki ég skal ekki segja, það hefur amk nú skapast sú hefð hjá ört vaxandi hópi fólks að hamstra árstíðarbjór frá Borg og prófa að þroska eins lengi og menn hafa þolinmæði í og sjá hvað gerist. Ég á enn tveggja ára Giljagaur í skúrnum mínum bara svo það komi hér fram.
Árstíðarbjór og samstarfsverkefnin
Borg bjór er oft á tíðum mjög góður til geymslu
Talandi um Árstíðarbjór en það fyrirbæri er nokkuð fyrirferðarmikið hjá Borg, þ.e.a.s bjór sem kemur einungis út á ákveðnum tíma árs og svo þurfa menn að bíða í ár eftir næstu útgáfu. Þetta er t.d. bjór á borð við Úlf Úlf sem kemur út í apríl og er líklega fyrsti 1.apríl bjór veraldar? Jólabjórinn, Páskabjórinn þeirra og Oktoberfestbjórinn er alltaf breytilegur frá ári til árs, þetta árið eru þeir meira að segja tveir oktoberfestbjórarnir, Grétaog Hans.
Svo skiljum við ekki við þessa upptalningu án þess að nefna Surtinn. Surturinn er, eins þverstæðukennt og það kann að hljóma“ ljósið í myrkum febrúar. Surturinn er það sem gerir Þorrann skemmtilegan að mínu mati en ár hvert gefur Borg út nýjan Surt í kringum Þorra. Surtur er alltaf öflugur bjór, imperial stout sem hefur náð allt að 15% áfengis. Í seinni tíð hafa þeir meira að segja komið með nokkra mismunandi Surta í einu. Þegar ég lék lausum hala á Skúla bjó ég til agnar litla hátíð í kringum útgáfu Surts sem ég kallaði bara „Surtsdaga“ en mikil tilhlökkun hefur verið fyrir þessa daga á mínum bæ ár hvert. Ég get varla beðið eftir næstu Surtsdögum þegar þetta er ritað, hvaða kræsingar koma þeir með næst, reyndar veit ég aðeins en má ekki segja?
Annað sem Borg er að verða dálítið frægt fyrir hér heima eru samstarfsbjórarnir þeirra eða „collab“ bjór eins og menn kalla það. Hér erum við að tala um bjór sem Borg bruggar með einhverjum af bestu brugghúsum veraldar, við erum að tala bjór á borð við Fjólubláa Höndin með Arizona Wilderness, Smugan með 7Fjell, og nú síðast hinn dásamlegi Aycayiameð Cigar Citytil að nefna það helsta. Það verður spennandi að fylgjast með þessari þróun í framtíðinni.
Snillingarnir á bak við ölið
Stulli, Valli og Árni. Mynd fengin að láni af fésbókarsíðu Borg Brugghúss
En hverjir eru svo á bak við Borg brugghús, þ.e.a.s hverjir skipta máli? Í gegnum bjórskrif mín og ekki síst Skúla Craft Bar á sínum tíma hef ég náð að kynnast galdramönnunum á bak við brugggræjurnar af eigin raun. Í upphafi var það bara Stulli (Sturlaugur Jón Björnsson) sem fékk að leika lausum hala í brugghúsinu og það er sko ekki neitt „bara“. Stulli er sprenglærður andskoti sem svo sannarlega kann sitt fag. Hann tók bruggmeistarann frá American Brewers Guild og starfaði um tíma með Vinnie hjá Russian River sem menn ættu að þekkja sem eitt mest “hypaða” brugghús veraldar. Það á hypið líklega fyllilega skilið þannig að það er í góðu lagi. Á bak við gríðarlega myndugt skeggið er að finna vinalegan og sérdeilis rólegan gaur sem gaman er að spjalla við um heima og geima. Reyndar kynntist ég Stulla fyrst í gegnum góð ráð á netspjalli heimabruggara þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í heimabrugginu í Danmörku fyrir fullt af árum.
Borg fjölgaði síðar bruggmeisturum um helming þegar Valli bættist í hópinn en Valli, öðru nafni Valgeir Valgeirsson, er sérvitri snillingurinn á bak við meistaraverkið Lavastout sem verður að teljast tímamótaverk og brautryðjandi bjór á sínum tíma. Valli lærði við Heriot-Watt University í Edinborg og starfaði síðar hjá Heather Ale Brewery í Skotlandi þar sem hann stútfyllti reynslubankann sinn af töfrabrögðum sem við erum að njóta í dag hér heima. Valli hlaut enn fremur starfsþjálfun hjá Gourmet Bryggeri í Danmörku sem er sko ekkert slor. Valli er líkt og Stulli yfirvegaður og rólegur karl með ríka réttlætiskennd og ef maður hefur gaman að para bjór og mat saman þá er Valli maðurinn sem maður vill hafa með á hliðarlínunni enda mikið áhugmál hans.
Nýjasti meðlimurinn er svo gæðablóðið Árni Theodor Long, margslunginn heimabruggari til fjölda ára. Hann bættist í hópinn fyrir nokkrum árum og má segja að hann virki eins og límið sem bindur þetta allt saman. Nei ég segi svona, Árni er góði karlinn sem gott er að ræða við og gaman er að tralla með á góðri stundu. Ef Stulli er maltið, og Valli humlarnir þá væri Árni gerið, allt í frábæru jafnvægi.
Svo þarf að nefna annan snilling til sögunnar, manninn sem passar upp á að allt fari nokkuð vel fram, gaurinn sem hefur hemil á strákunum, eðalmennið sem á mikinn þá þátt í að koma Borg á blað hér heima og erlendis. Karlinn sem þú talar við ef þig langar að dansa með galdramönnunum á Borg, rokkarinn sem býr yfir öllum leyndarmálunum, veit hvað er í pípunum og svona mætti lengi telja. Við erum að tala um stórmennið Óla Rúnar Jónsson, rokkarann síkáta, „Borgarstjóra“ Borgar Brugghúss held ég að við getum kallað hann með góðri samvisku en á ensku myndi það útfærast general manager. Þetta er maðurinn sem sjaldan er með á myndunum en er alltaf með í ráðum sem er undarlegt því drengurinn er fjallmyndarlegur.
Skúli Rauðöl mótaður @Borg Brugghús. Árni, Freysi og Valli
Já mér hefur hlotnast sá heiður í gegnum tíðina að eiga náin samskipti við þessa eðalmenn og stendur kannski uppúr samstarf okkar þegar við skópum saman alveg nýjan bjór, bjór sem mér finnst reyndar með betri Borg bjórum þarna úti (er auðvitað alls ekki hlutlaus), bjór sem um þessar mundir fæst einungis á krana á Skúla Craft Bar en verður vonandi aðgengilegri í framtíðinni? Við erum að tala um Skúla Rauðöl, 5% humlað amerískt rauðöl með Mosaic og Simcoe humlum í dásamelgu jafnvægi við maltið. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir að fá að upplifa það að eigin raun hvernig er að gera bjór í alvöru brugghúsi með mönnum sem lifa fyrir fagið. Ég hvet fólk hér með til að trítla niður á Skúla Craft Bar og prófa herlegheitin.
Hvað er svo í pípum? Borg mun vonandi halda áfram að ferja í okkur eðalöl um ókomna tíð, það er amk ekkert útlit fyrir annað. Það ríkir hins vegar ævinlega mikil leynd yfir því sem menn eru að bardúsa bak við tjöldin hjá Borg, við höfum þó fengið nokkra „tísera“ á fésbókarsíðu þeirra, t.d. er eitthvað súrt og spennandi að þroskast á eikartunnum en Guð má vita hvenær og við hvaða tækifæri við fáum að sjá hvað úr verður. Svo verða tveir Páskabjórar á næsta ári og annar þeirra verður Júdas, 11,5% quadrupel endurfæddur nema að þessu sinni er hann þroskaður í koníakstunnum í 6 mánuði. Sá verður flottur. Surtur 30 verður svo aftur á næstu Surtsdögum ásamt fleirum á ég von á en hann er þegar kominn á flöskur og mun þroskast vel fram á næsta Þorra.
Svo kreisti ég uppúr Óla Rúnari smá upplýsingum um jólabjórinn en að þessu sinni er það Askasleikir Nr 45 sem er 5.8% Amber Ale sem að sjálfsögðu er þroskaður á alvöru öskum, sérinnfluttum fyrir verkefnið, nema hvað. Óli er dálítið spenntur fyrir þessum en hann segir þá vera að prófa nýtt og spennandi blautger sem mun gefa bjórnum djúsí og mjúka áferð. Svo minnti hann mig á næsta samstarfsbjór með Four Winds í Kanada (Brittish Colombia) sem er spennandi bruggús sem stofnsett var árið 2013. Ég hef ekki smakkað bjór frá þeim en allt umtal lofar verulega góðu. Bjórinn hljómar vel og hlakka ég gríðarlega til að smakka hann. Óli segir að bjórinn muni verða súrbjór brugguðum með dularfullu geri sem Four Winds gaurarnir fluttu með sér hingað fyrir þetta verkefni. Dagsetning er ekki komin en fljótlega segir Óli, bjórinn kúrir núna á krækiberjum og bláberjum í þessum skrifuðum orðum.
Já það eru spennandi tímar sem við lifum á í dag og ljóst að Borg mun halda okkur við efnið næstu árin!
Það má eiginlega segja að ég hafi beðið eftir þessum bjór síðan 2014 þegar Gréta kom fyrst frá Borg. En þá endað ég umfjöllun mína um Grétu með eftirfarandi :
“…. Þetta er bara nokkuð flottur og skemmtilegur bjór. Svo er spurning hvenær Hans kemur út? Varður það oktoberbjórinn að ári eða bara næsti bjórinn frá Borg?“
Alla vega, Hansnr. 44 er nú kominn tveim árum síðar til að styðja við systur sína endurfæddu, Grétu , sem einn af tveim Oktoberfestbjórum frá Borg þetta árið. Hans er þýskur reykbjór eða rauchbier sem líklega er einn af mest krefjandi bjórstílum þarna úti. Það er alla vega óhætt að segja að fólk verður að vita fyrirfram útí hvað það er að fara.
Rauchbier
..eins og nafnið bendir til er reyktur bjór, þ.e.a.s bjór með reyk í bragði, hvað annað? Þessi bjórstíll, reyktur bjór, var hér áður fyrr eiginlega allsráðandi ef svo má segja því fram til byrjun 19. aldar áttu bruggarar lítinn möguleika á að þurrka maltið sitt nema yfir opnum eldi. Tæknin til að stjórna þurrkuninni var einfaldlega ekki til staðar. Það var vissulega misjafnt hvaða eldsneyti menn notuðu, en hvort sem það var gras, viður, kol eða eitthvað annað þá enduðu menn alltaf með reykt malt að einhverju leiti. Það var því al vanalegt að finna eitthvað reykbragð af bjór þess tíma. Þegar menn fóru svo að geta stjórnað þurrkuninni betur t.d. með tilkomu steikingarvéla Wheelers upp úr 1817 fór reykbragðið að hverfa almennt úr bjór. Reykurinn þótti þá vera óæskilegt aukabragð. Það voru þó einhverjir sem héldu tryggð við gamlar brugghefðir,nefnilega bjórgerðirnar í og í kringum Bamberg í Bæjaralandi. Þessar bjórgerðir notuðu áfram viðareld til að þurrka maltið sitt og þannig hefur þessi bjórstíll, rauchbier, varðveittst til dagsins í dag. Bamberg er í dag vagga reykbjórsins og þaðan kemur líklega sá þekktasti þeirra allra,Aecht Schlenkerla Rauchbier.
Reykbjór er eins og fyrr segir dálítið krefjandi bjór í fyrstu en eins og með allt nýtt í bjórveröldinni þá þarf maður að smakka með opnum hug og alltaf meira en bara einn eða tvo sopa. Reykbjór er nefnilega dálítið spes í fyrstu tilraun en „venst“ furðu fljótt. Bjórstíll þessi er auk þess ofsalega skemmtilegur til matargerðar og matarpörunnar. Þess má geta að við Íslendingar erum sko ekkert nýgræðingar í þessum stíl því Surt 30 frá Borg eru flestir farnir að þekkja, kolsvarti djöfullinn sem bruggaður er með taðreyktu malti og menn keppast við að ýmist hata eða elska.
Hans nr. 44
Í glasi er þetta undur fagur bjór, rauðbrúnn að lit með þétta notalega froðu. Það stígur mildur reykur úr glasinu en með dulítlu sætu korni með. Notalegt verð ég að segja. Í munni erum við með mun minni reyk en ég bjóst við, hann er vel merkjanlegur það er klárt en langt frá því að vera yfirdrifinn. Við erum hérna með fallega sviðsmynd þar sem bruggmeistarar Borg Brugghús fá að sýna okkur magnað verk þar sem reykur stígur dans við sætt malt og beiska humla allt saman í svo hárfínu jafnvægi. Reykurinn hverfur eiginlega þegar líður á bjórinn í sætt kornið en beiskjan vegur fallega á móti. Þannig erum við með dálítið af ristuðum nótum, mildan reyk, þægilega sætu og velkomna beiskju í bjór sem gefur flotta fyllingu og svo langt notalegt eftirbragð.
Þessi bjór er rakinn matarbjór hvort sem eldað er úr honum eða hann paraður með kræsingunum. Ég sé fyrir mér stórkostlegan jólabjór sem mun ganga vel með flestu því sem við Íslendingar maulum yfir jólin. Liturinn, svona rauðbrúnn með hvíta húfu gengur einnig fullkomlega upp. Ég get sagt ykkur að þennan mun ég kaupa vel af og láta standa í myrkri fram að jólum.
Takk fyrir mig Borg, flottur reykbjór sem ég tel að sé langt frá því að vera of krefjandi fyrir almúgann.
Það hefur færst í vöxt að bjórsmiðir í fremstu handverksbrugghúsum heims tappi afurð sinni á dósir. Þetta er hið besta mál því dósin er nefnilega það form sem varðveitir gæði bjórsins hvað best, það er svona sem bjórsmiðirnir vilja að þú upplifir bjórinn þeirra eða alla vega þeir sem hafa einhvern metnað fyrir því sem þeir eru að gera.
Kostirnir við dósina eru margir….til að byrja með eru þær bara mjög fallegar og glæsilegar, þegar menn leggja vinnu i að skreyta þær það er að segja. Dósirnar eru mun meðfærilegri en flöskurnar, léttari og brotna síður og á þann hátt öruggari td í heita pottinn. Það sem er hins vegar mikilvægast er að dósin ver bjórinn algjörlega fyrir ljósi en ljós skemmir bjórinn eða breytir honum alla vega til hins verra. Talað er um „light struck beer“ eða „skunked beer„.
Já skúnkaður bjór, hvað í ósköpunum er það? Jú þetta er í raun einföld efnafræði. Í öllum bjór, reyndar í mismiklum mæli, eru humlar en í humlum eru m.a svo kallaðar iso-alfa sýrur, þessar sömu og gæða bjór lífi og beiskju og við elskum öll. Það eru þessar sýrur sem bera dálítið ábyrgð á skúnkinum. Það er nefnilega svo að þegar sólarljós lendir í bjórnum myndast orka sem knýr áfram ákveðin efnahvörf. Þannig mynda alfa sýrurnar ásamt brennisteins samböndum í bjórnum ný „thiol“ sambönd (3-methyl-2-butene-1-thiol fyrir þá sem vilja vera nákvæmir) og það eru þessi thiol sambönd sem við finnum sem skúnk. Reyndar eru þessi thiol einnig að finna í rassúða skúnksins. Sama stöffið! Þessi efnahvörf í bjórnum fara af stað um leið og ljós byrjar að leika um bjórinn og því má segja að ef maður situr úti í sólinni með bjór í glasi að þá er hann þegar byrjaður að skúnkast. Það eru þannig nokkrir þættir sem vert er að hafa í huga svo maður skemmi ekki upplifunina, umbúðirnar eru númer eitt, alls ekki nota glærar flöskur, grænar eða bláar því þessar umbúðir hleypa ljósinu nánast óáreittu í gegn. Þetta segir okkur t.d. að þegar maður drekkur bjór eins og Sol, Miller, Bud light og hvað þetta heitir nú allt saman í glæru flöskunum að þá er maður að drekka skúnkaðan bjór enda er þessi bjór viðbjóður. Reyndar eru þessi bjórar með lítið humalmagn og því myndast ekki eins mikið af thiolum, en hann er samt vondur. Brúnt gler er mun betra og dósin auðvitað best. Svo ber að hafa í huga að láta ekki bjórinn standa í beinu sólarljósi á meðan maður er að njóta hans þó hann sé í brúnu gleri. Reyna að hafa smá skugga á honum og drekka hann hratt! Muna að vel humlaður bjór er gjarnari á að skúnkast. Þetta færir okkur að næsta lið, humlahamingjunni.
Humlar eru dásamlegt fyrirbæri, þeir gæða bjórinn lífi, gefa beiskju og dásamlegt ávaxta-eða blómlegt yfirbragð. Humlarnir eru hins vegar viðkvæmir fyrir tímans tönn því þeir missa máttinn ef svo má segja með tímanum. Viðkvæmar olíur og sýrur í humlunum brotna niður eða breytast fyrir áhrif ljóss eins og áður hefur komið fram en einnig súrefni. Súrefni oxar humlana og skemma þá með tímanum, í dósinni er ekkert ljós og súrefni á mjög mjög erfitt með að komast að bjórnum ólíkt flöskubjór. Þannig að humlarnir varðveitast betur í dósinni. Er þetta eitthvað sem menn finna mun á? Já ég get sagt ykkur að það er munur á bjór í flösku vs dós. Ef við erum að tala um humlaðan bjór, t.d. IPA eða Pale Ale (sem á að drekka eins ferskt og hægt er) sem hefur verið tappað á dós og flösku á sama tíma þá er klár munur á gæðum nema þú sért að ná í þetta nokkurra daga gamalt. Þetta er hægt að prófa t.d. hér heima með Punk IPA sem fæst bæði í dós og gleri eða Founders All Day Session IPA.
Sem sagt, til að varðveita gæði bjórsins hvað best þá er það bjór í dós, eins ungur og hægt er ef við erum með humlaðan bjór og ekki láta standa í glasinu í beinu sólarljósi og að lokum, drekka hann frekar hratt. Ég segi alltaf við frúnna, sem á það til að njóta bjórsins svo í botn að hún dúllar sér við sama glasið í einhvera klukkutíma, „þú veist að bjórinn byrjar að skemmast um leið og hann lendir í glasinu“. Þegar ofanritað er lesið þá er þetta reyndar ekki fjarri sannleikamum eða hvað?
AyCayia er orðinn að veruleika veiii! Ég hef beðið eftir þessum bjór af mikilli óþreygju núna í næstum því heilt ár, samstarfsbjór Borgarog Cigar City Brewing, einu farsælasta brugghúsi Bandaríkjanna og í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Bjór þessi á sér heilmikla sögu, sögu sem hefst í lok september 2015 með einni af þessum hugdettum sem stundum bara detta í kollinn. Ég var á þessum tíma á leið á bjórhátíð í London, Route CBC til að smakka bjór og ræða við bjórsmiðina eins og menn gera jú á svona hátíðum. Ég var mjög spenntur því hátíðinni var skipt upp í nokkra staði eða “event” með mismunandi „thema“, á einum staðnum var amerískt thema, bara bjór og bruggarar frá nokkrum af bestu brugghúsum Bandaríkjanna á heilum 50 krönum takk fyrir , við erum að tala um Funky Buddah, Jake Wakefield, Lost Abbey, The Other Half og svo Cigar City ásamt fleirum. Frábært tækifæri til að kynnast þessum brugghúsum betur. Til gamans má nefna að guttarnir frá Borg voru einnig á þessari hátíð með bjórinn sinn á norrænum event og slóu auðvitað rækilega í gegn.
En að hugmyndinni, ég hafði laumað tölvupósti á Joey Redner, stofnanda Cigar City,fyrir ferðina þar sem ég eiginlega mælti mér mót við þessa kappa á hátíðinni. Við hittumst svo fyrir rest á CBC og ræddum málin yfir góðum bjór, eða bjórum…allt of mikið af bjórum reyndar en það er önnur saga og reyndar mjög skemmtileg en skoðum það síðar. Mig langaði nefnilega að reyna að fá Cigar City til landsins að brugga bjór með íslensku brugghúsi og þar sem Borg er í miklu uppáhaldi hjá mér var borðleggjandi að bera það undir Óla Rúnar og co hjá Borg við sama tækifæri. Viti menn, Joey tók vel í hugmyndina og Óli og félagar sömu leiðis. Á þessum tíma var ég ekki búinn að koma mínu eigin brugghúsi á laggirnar, annars hefði þetta líklega getað orðið Cigar City/nano collab, eða hvað, æ ég veit ekki? En eftirleikurinn var eins og spennandi framhaldssaga því eftir að hafa leitt þessar hetjur saman via tölvupóst fylgdist ég með bjór verða til á prenti í gegnum bréfasamskiptin milli Wayne bruggmeistara Cigar City, Stulla, Árna og Valla. Það er ævintýralegt að fá að vera fluga á vegg og fylgjast með álíka snillingum í bjórgerð ræða humla, ger og bjórstíla og kasta hugmyndum sín á milli, hugmyndum sem svo loks enda með ákvörðun og fyrir rest bjór. Við erum að tala um tugi pósta þar sem hvert smáatriði var rökrætt og endurskoðað og svo rökrætt aftur áður en næsta atriði var tekið fyrir. Það er afar sjaldgæft að sjá svona mikinn undirbúning fyrir samstarfsbjór. Ég var sérsteklega spenntur þegar menn ræddu humlana, við erum að tala um humalprófíl sem maður hefur bara ekki séð í bjór áður. Það fór hamingju straumur um mann þegar Wayne fór að tala um öll þessi suðrænu humlaafbrigði, tegundir á borð við Azacca, Lemon Drop og Pacific Jade ásamt haug af öðrum spennandi humlum. Listinn endaði loks í Equinox, El Dorado, Eureka, Calypso, Mandarina Bavaria ásamt þekktum félögum Citra, Mosaic og Magnum. Þetta er dásamleg upptalning þó ég viðurkenni að þekkja bara örfáa humla á listanum. Kannski maður prófi eitthvað af þessu í næsta brugg?
En allt endaði þetta svo með uppskrift sem á blaði hljómaði einfaldlega eins og fullkomið listaverk og nú er svo loks komið að því að bragða á þessu meistarastykki.
Nafnið Aycayia er eiginlega eitt og sér stórkostlegt, maður einhvern veginn veðrast allur upp og langar að smakka þennan drykk hvað sem það kostar. Aycayia er nafn á goðsögn frá karabíska hafinu, „sú með hina fögru rödd“ sem var lostafull hafmeyja þekkt fyrir að tæla til sín karlmenn með fallega sköpuðum líkama sínum og loforðum um góðar stundir en svo rændi hún þá í staðinn frjálsum vilja. Já ég er ansi hræddur um að bjórinn beri nafn með réttu, suðrænn og tælandi sem rænir mann í raun öllu viti ef maður fer ekki varlega.
Aycayia er vægast sagt stórkostlegur bjór, við erum að tala um suðræna hamingjubombu á formi 7% IPA. Í glasi er hann gylltur og mattur með dúnamjúkan froðuhaus. Um leið og maður hellir honum finnur maður tælandi angan af suðrænum ávöxtum, ananas, perur og mango til að nefna eitthvað. Í munni er hann hreint út sagt dásamlegur, spriklandi gosið lífgar strax upp á bragðlaukana og gerir þá klára fyrir humlaseríuna sem mynda flókið samspil ávaxta, beiskju og blóma. Hér má finna heila ávaxtakörfu af suðrænum ávöxtum af öllum stærðum og gerðum. Ég fer ekki nánar út í það því hér verða menn að lofa sínum eigin bragðlaukum að ákveða nákvæmlega hvaða ávexti þeir pikka upp en það er einmitt svo einstaklingsbundið. Sætan er langt í frá að vera of mikil því bjórinn er nokkuð þurr á móti. Eftirbragð er langt og seyðandi og manni einhvern veginn er alveg sama þó maður eigi eftir að tapa áttum. Hver sopi kallar á þann næsta en þannig á það líka að vera.
Hér erum við með dæmi um bjór sem að mínu mati gengur upp frá A til Ö, nafnið, merkimiðinn og drykkurinn, allt pottþétt. Þvílíkur bjór! Það verður slegist um þennan þegar hann dettur í ÁTVR.
Borg hefur ákveðið að endurvekja Grétu baltic porter frá 2014 sem svar við háværum röddum pöpulsins sem er bara gott mál því nú fær maður að sannreyna hvort gott sé að geyma og þroska Grétu. Ég man nefnilega að menn voru að velta þessu fyrir sér á sínum tíma og svarið var í raun einfalt…hver veit, prófaðu bara! Ég hafði amk ekki hugmynd um hvernig Gréta myndi þroskast. Mér tókst að geyma eina flösku.
Nú veit ég ekki alveg en mig grunar að uppskriftin sé ekki alveg nákvæmlega sú sama og síðast en alla vega þegar ég ber saman nýju og gömlu Grétu kemur eftirfarandi í ljós:
Gamla Gréta er einhvern veginn mun skemmtilegri í nefi, við erum að tala um sætan vínkeim, kirsuber jafnvel og svo rúsínur, mjög tælandi og elegant. Í nýju Grétu vantar dálítið fúttið í nefi en við erum þó með ögn ristað korn, súkkulaði og eins og þroskaðan banana?
Í munni hins vegar er hin nýja Gréta mun skemmtilegri, miklu líflegri og hressilegri. Kaffi, ristað korn og dökkt súkkulaði, allt eftir bókinni. Mjög flottur porter með notalega fyllingu. Gamla Gréta hefur hins vegar ekki elst nægilega vel, hún hefur tapað dálítið karakternum. Ristin er mun minni og sætur maltkeimurinn er alls ráðandi, minnir dálítið á bock. Það vantar einhvern vegin samheldnina ef ef svo má að orði komast.
Þetta er flott framtak hjá Borg og bara helvíti vel lukkaður bjór og það var gaman að læra það að Grétu skal ekki geyma heldur njóta hér og nú á meðan færi gefst. Hver veit svo hvaða bjór Borg endurvekur næst ;)…..ég ætla hér með að leggja til Þvörusleiki eða Teresu.
En hvað er baltic porter? Rennum yfir það.
Baltic porter er upphaflega kominn frá hinum baltnesku ríkjum svo sem Lettlandi, Eistlandi, Litháen, Póllandi og jafnvelRússlandi og Svíar hafa einnig verið bendlaðir við stílinn. Á 18. öld barst hinn enski porter til þessara ríkja og svo hafa menn farið að gera sína eigin útgáfu. Þannig varð baltic porter til sem túlkun þessara ríkja á stílnum. Stíllinn er þó ólíkur hinum enska porter hvað varðar áfengismagn sem getur orðið töluvert og er því kannski frekar hægt að líkja stílnum við hinn rómaða Russian Imperial Stout,kannski heldur langsótt? Baltic porter þarf alls ekki að vera af gerðinni öl eða yfirgerjaður heldur er eiginlega algengara að um lager sé að ræða. Ég veit, þetta hljómar ekki alveg rétt eða hvað? Þetta er mjög maltaður stíll, mikið af korni í honum og því oft nokkuð sætur og þægilegur. Þrátt fyrir háa áfengisprósentu þá skortir hann þróttinn sem maður fær í frændum hans imperial stout.
Ég má til með að hrósa Járn og Gler fyrir þetta, Punk IPA í dósum! Já ég sagði í dós og já ég sagði Járn og Gler. Fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er kominn tími á að uppfæra upplýsingabankann en Járn og Gler flytur inn nánast allt eðal stöffið sem við erum að sjá á börunum ss Skúla, Microbar og Bjórgarðinum ofl. Mikkeller flytur sitt inn sjálfur en stundum taka þeir líka perlur frá Járn og Gler. Það eru þeir bræður Andri Þór Kjartansson og Ingi Már Kjartansson sem við getum þakkað að úrvalið hér á landi er svona flott. Klapp á bak fyrir það strákar!
Dósabjór er vel þekkt fyrirbæri, menn tengdu þetta hér í denn við „lagersull sem má drekka hvernig sem er“ (sem reyndar er ekki rétt). Fínan bjór átti að drekka í gleri því það er miklu betri umbúðir og varðveitir gæðin. Þetta er það sem margir halda/héldu, ég viðurkenni það sjálfur að þegar ég byrjaði á þessu öllu saman þá var glerið það eina sem mátti koma í minn ískáp. Svo hefur maður jú lært ýmislegt, m.a. það að dósin varðveitir bjórinn mun betur, fyrir það fyrsta kemst akkúrat ekkert ljós í bjórinn en ljós hefur skelfileg áhrif á bjór, þið sjáið t.d. að allur bjór er í grænum eða brúnum flöskum ekki satt? Og svo ég hafi það nú með hér þá eru brúnu flöskurnar betri hvað þetta varðar. Hitt er svo að kolsýra og það sem er kannski mikilvægara humalkarakterinn heldur sér betur í dósinni á meðan flöskurnar leka hægt og rólega.
Þetta eru handverksbrugghúsin löngu búin að átta sig á en hafa farið varlega í það að breyta yfir í dósirnar bæði af því að það er kostnaðarsamt að breyta og svo er almenningur hræddur við dósirnar og tengir þær við lélegan lágæðabjór. Bruggarar eru hins vegar farnir að berjast gegn þessu núna enda er þeim í mun að koma bjórnum sínum til fólks á sem bestan máta. Því fagna ég því að nú sé Punk IPA kominn í ÁTVR í dós og hvet ég fólk að velja heldur dósina. Muna bara að drekka ekki beint úr dósinni því þá er hætt við að menn finni ögn álbragð með. Ég vil svo taka fram að Founders All Day IPA hefur verið fáanlegur í dós um nokkurt skeið og hann er meira að segja ódýrari í dósinni. Sem sagt þú BORGAR MINNA FYRIR MEIRI GÆÐI!
Strákarnir hjá Borg hafa svarað kalli almúgans og ákveðið að endurvekja Grétu þennan merka baltic porter frá 2014. Þetta er skemmtilegt því nú hafa þeir lagt línurnar og sýnt fordæmi ekki satt? Uss hvað menn eiga eftir að suða í þeim um fleiri fornar hetjur. En alla vega, hér er það sem ég skrifaði um Grétu á sínum tíma, gaman að fara svona aftur í tíman, hér var t.d. snillingurinn Árni nýkominn til þeirra á Borg!
„Maður er orðinn allt of góðu vanur held ég þegar maður er farinn að bíða óþolinmóður eftir næsta bjór frá Borg en nú er hann loksins kominn eða bara rétt handan við hornið. Mér skilst að hann komi á barina í kvöld og svo í vínbúðirnar í næstu viku líklegast. Ég held að ég sé ekki að fara rangt með heimildir þegar ég segi að þetta sé jafnframt fyrsti bjórinn sem kemur frá Borg eftir að Árni Long áður ÖB bruggari bættist í hópinn en hvernig sem er fyrsti eða annar þá skiptir það svo sem ekki máli, þetta er allt gott. Ég býð bara Árna hér með formlega velkominn í hóp þeirra sem mega gleðja bragðlauka mína.
Hér erum við alla vega að tala um oktoberfestbjórinn þeirra Borgara sem þeir kalla Grétu, þetta er7.3% baltic porter sem vel er til þess fallinn að þroska dálítið á flösku með öllum hinum stóru körlunum frá Borg. Það er bara svo gaman að sjá hvernig þessir bjórar breytast og dafna með tímanum. Gréta fær líklega nafn sitt úr ævintýrinu um þau salgætissjúku systkin Hans og Grétu en tengingin við bjórinn er líklega sú að í hann eru notaðar 4 gerðir korns og auðvitað ger og vatn sem er jú uppistaða brauðs. Það er því heilmikið brauð í þessari kerlingu ef svo má segja, brauðmolar?
Porter er ekki minn uppáhalds stíll en ég dett þó annað slagið niður á mjög góða slíka, sjáum t.d. Myrkva frá Borg, ogauðvitað skipta aðstæðurnar máli líka. Gréta er reyndar ekki venjulegur porter, Gréta er baltic porter sem þýðir að maður fær alveg slatta af áfengisprósentum með í kaupunum. Gréta er því næstum því imperial porter þó svo að hún kannski nái ekki alveg þeim stalli. Menn vita sem þekkja mig að ég er sérlega hrifinn af öllu sem heitir imperial eða double eitthvað og því hef ég verið dulítið spenntur fyrir þessari kerlu hér.
Baltic porter er upphaflega kominn frá hinum baltnesku ríkjum svo sem Lettlandi, Eistlandi, Litháen, Póllandi og jafnvel Rússlandi og Svíar hafa einnig verið bendlaðir við stílinn. Á 18. öld barst hinn enski porter til þessara ríkja og svo hafa menn farið að gera sína eigin útgáfu. Þannig varð baltic porter til sem túlkun þessara ríkja á stílnum. Stíllinn er þó ólíkur hinum enska porter hvað varðar áfengismagn sem getur orðið töluvert og er því kannski frekar hægt að líkja stílnum við hinn rómaða Russian Imperial Stout, kannski heldur langsótt? Baltic porter þarf alls ekki að vera af gerðinni öl eða yfirgerjaður heldur er eiginlega algengara að um lager sé að ræða. Ég veit, þetta hljómar ekki alveg rétt eða hvað? Þetta er mjög maltaður stíll, mikið af korni í honum og því oft nokkuð sætur og þægilegur. Þrátt fyrir háa áfengisprósentu þá skortir hann þróttinn sem maður fær í frændum hans imperial stout.
„Árstíminn fyrir þennan bjór er einmitt núna að mínu mati, haustið, september/oktober, það er farið að kólna í veðri sem kallar á aðeins þyngri bjór og fleiri prósentur en þó er maður ekki alveg tilbúninn í hardcore imperial vetrarbjórinn.“ Græni Karlinn
Gréta er falleg í glasi, kolsvört og glæsileg með fallegan froðuhaus sem lætur sig þó hverfa nokkuð fljótt. Í nefi er lítið að gerast, korn, malt, brauð og svo aðeins dökkt súkkulaði? Í munni hins vegar lifnar hann allur við og stuggar aðeins við bragðlaukunum með kitlandi gosi og humlum. Beiskja í hófi en er þarna þó. Hann er nokkuð mildur á tungu, það er ögn hiti í honum frá áfenginu sem kemur virkilega vel út, haustlegt! Skrokkur er meðal til mikill en ekki þó imperial þéttleiki. Hann er alls ekki eins sætur og ég bjóst við, maltið er þó þarna og gefur ögn karamellutón, örlítið ristaður fílingur og svo eins og einhver lakkrískeimur í lokinn. Allt kemur þetta mjög vel út og vekur því alveg réttu lukkuna.
Þetta er bjórinn til að drekka í bústaðnum á pallinum meðan sólinn sest og haustlaufin fjúka um í öllum regnbogans litum. Þetta er ölið sem maður drekkur eftir erfiða vakt á Landspítalanum til að róa taugarnar rétt fyrir háttinn og þetta er bjórinn sem passar með lambinu, grillmatnum og stóra flotta djúsí BBQ borgaranum. Þetta er bara nokkuð flottur og skemmtilegur bjór. Svo er spurning hvenær Hans kemur út? Varður það oktoberbjórinn að ári eða bara næsti bjórinn frá Borg?
Græni Karlinn : Skemmtilegur bjór, kolsvartur en ekki þannig á bragðið, mun léttari og einfaldari bjór en maður bjóst við. Aðeins súkkulaði og lakkrís sem kemur skemmtilega út og svo er þessi þægilegi hiti í honum. Nokkuð sáttur bara!
Já svo mörg voru þau orð….ég er enn að bíða eftir Hans!!
Það hefur lítið farið fyrir nýjasta sköpunarverki Borgar brugghúss, Gísla Súröl sem þeir félagar Stulli, Árni og Valli sendu frá sér á sumarmánuðum. Gísli sem er nr 42 í röðinni er 4% súröl sem hentar vel til sumardrykkju. Tengingin við nafnið ætti að vera augljós. Súrbjór er dálítið krefjandi bjórstíll, þetta er ekki bjórinn sem þú prófar sem þín fyrstu skref úr öruggu umhverfi lagerbjórsins nema að þú sért með ríka ævintýraþrá og opinn huga.
Við Íslendingar höfum ekki haft mikil kynni af súrbjór í gegnum aldanna rás en við erum samt sem áður alls engir viðvaningar þegar kemur að súrum drykkjum. Mysa hefur t.d. verið drukkin hér á landi sem svaladrykkur frá tímum Víkinga þótt yngri kynslóðir séu fyrir all nokkru hættar að leggja sér hana til munns. Mysa inniheldur m.a. mjólkursýrugerla (Lactobacillus tegundir) sem gera hana svona súra og sérstaka, en í Gísla Súröl eru einmitt notaðar svipaðar bakteríur úr Lactobacillus fjölskyldunni ásamt villigersveppum af Brettanomyces ættum. Lactobacillus gerir bjórinn súran og mysukenndan á meðan Brettanomyces gefur af sér bragð sem mjög erfitt er að lýsa. Menn verða einfaldlega að smakka bjór sem er „brettaður“ eins og stundum er sagt til að átta sig á því bragði. Stundum líkt við leður, háaloft eða fúkkalykt. „Funky“ er einnig orð úr bjórheiminum sem notað er yfir þetta fyrirbæri.
Nú hugsa sumir, bjór sem er súr er skemmdur bjór. Að mörgu leiti er það rétt, bjór sem ekki á að vera súr, ss lager, pale ale ofl má alls ekki vera súr því þá er hann skemmdur, þ.e.a.s. það hefur komist sýking í hann. Með sýkingu er þá átt við að villtar örverur úr umhverfinu hafa náð bólfestu í bjórnum og eru byrjaðar að sýra bjórinn. Þegar svo er komið er um sýktan, skemmdan bjór að ræða. Það er því í raun hægt að segja að súrbjór sé viljandi skemmdur rétt eins og á við um mygluosta t.d.
Ég mæli með að drekka Gísla fyrst ískaldan, sérstaklega ef menn eru að prófa súrbjór í fyrsta sinn. Svo er alltaf skemmtilegra að bragða bjór aðeins heitari síðar því þá koma allar bragðflækjurnar betur fram. Gísli er fallegur í glasi, mattur með gulum blæ, froðan hverfur samt alveg um leið. Í nefi má finna eins og sítrónukeim og mysu, ekki mikið „funk“. Léttur í munni og auðvitað súr á tungu og tekur létt í kinnar. Mjólkurgerillinn er áberandi og þannig minnir hann nokkuð á Mysuna en það fer lítið fyrir brett gerinu. Ögn sætt eftirbragð og þægilega kolsýrður. Mjög svalandi og skemmtilegur bjór sem vert er að smakka. Muna svo að dæma aldrei nýjan bjór af fyrstu kynnum,alltaf að smakka aftur.