Ó Borg mín (eða mitt) Borg!

borggraejur
Ég hef fjallað um hin ýmsu brugghús veraldar, bruggús sem mér líkar sérstaklega vel við.  Þetta hef ég skrifað um hér á nano, á bjórbók.net á sínum tíma, á Skúla Craft Bar síðunni og www.bjorspeki.com.   Ég er hins vegar að átta mig á að ég hef ekki skrifað formlega um okkar besta brugghús, okkar eigið Borg Brugghús nema kannski á formi búta hér og þar í tengslum við nýja bjóra frá þeim og uppákomur.  Þegar áhugamál gleypir mann algjörlega getur maður nefnilega stundum verið dálítið blindur á þekkingu náungans og gerir jafnvel bara ráð fyrir að allir viti nákvæmlega hvað Borg er.  Borg hefur vissulega verið að láta hressilega til sín taka undanfarið og komið sér á blað bæði hér heima en ekki síst á alþjóðlegum vettvangi, en ég finn þó að enn er fólk þarna úti sem hváir þegar ég tala um nýja bjórinn frá Borg.  Þetta þarf að laga, það þarf að boða fagnaðarerendið, Íslendingar verða jú að vita hvað Borg Brugghús er áður en það veit allt um Edge Brewing í Barcelona t.d.  Eða hvað?

Alla vega, skundum aðeins yfir þetta!  Stutta útgáfan er þessi:

„Borg Brugghús er það besta sem komið hefur fyrir íslenskan ölkúltur í langan tíma að mínu mati, alla vega á eftir að bjórbanninu var aflétt á Íslandi. Það er t.d. Borg að þakka að hægt var að flytja heim frá Danmörku að námi loknu á sínum tíma.  Þessi  fullyrðing er vissulega aðeins  lituð af persónulegum skoðunum pistlahöfundar, „biased“ eins og sagt er, viðurkenni það.  Ef við förum aðeins meira hlutlaust yfir þetta þá væri það svona“…

Borg Brugghús var stofnað árið 2010 sem eins konar „leikvangur“ fyrir metnaðarfulla bruggmeistara Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar þar sem þeir gátu fengið útrás fyrir sköpunargleði sína í bjórgerð.  Markmiðið var að bæta bjórmenningu Íslendinga. Borg átti þannig að vera hliðstæða hinna svo kallaðra örbrugghúsa eða microbreweries sem hafa átt miklum vinsældum að fagna um heim allan á síðustu áratugum.  Sumir töluðu um örbrugghús í risabrugghúsi þar sem aðstaðan er vissulega innan veggja Ölgerðarinnar.  Þetta fór fyrir brjóstið á hörðustu bjórnördunum sem vildu meina að ekki væri hægt að tala um örbrugghús í þeim skilningi.  Hvað sem því líður, brugghúsið starfar óáreitt og með sína eigin bruggmeistara sem einbeita sér af því að brugga „handverksbjór“ í bruggtækjum sem tileinkuð eru Borg Brugghús.  Stóru vinnslusalir Ölgerðarinnar koma þarna ekkert við sögu.      En dæmi hver fyrir sig, fyrir mína parta er um að ræða lítið brugghús sem bruggar stórkostlegan bjór og það er jú aðal atriðið.

Fyrsti bjórinn frá Borg kom út í maí 2010, Brio hét hann, þýskur pilsner sem hannaður var í samstarfi við Ölstofu Kormáks og Skjaldar.  Þetta var ekki róttækur bjór ef svo má segja en þessi bjór var algjörlega einstakur.  Þarna var komið eitthvað nýtt en samt ekki svo framandi.  Vinsældir bjórsins jukust jafnt og þétt á árunumum á eftir og hefur hann meira segja unnið til stórra verðlauna á viðurkendum stórmótum erlendis.  Í dag er Brio gríðarlega vinsæll hér heima þó hann sé reyndar núna framleiddur í stóru Ölgerðinni og er þannig í raun ekki eiginlegur Borg bjór lengur.

NR. 3 ÚLFURFyrstu skrefin
Borg Brugghús var stofnað eins og þeir segja sjálfir einhvers staðar, til að bæta bjórmenningu landins.  Þeim hefur sannarlega tekist það en  frá opnun brugghússins hafa þeir sent frá sér alla vega 44 mismunandi bjóra gróflega áætlað.  Á upphafsárum Borgar stigu þeir dálítið varlega til jarðar, fyrst var það Brio, svo kom Austur sem ég reyndar náði aldrei að tengjast, en svo kom Úlfur, elsku Úlfurinn.   Fyrsti alvöru íslenski India Pale Ale bjórinn og almáttugur hvað hann var kærkomin sending á þessum tíma þar sem alls ekki var um auðugan garð að gresja í vínbúðinni.  Úlfur var í raun eini amerísk innblásni IPA-inn á landinu á þeim tíma.  Ég man að ég felldi næstum tár þegar Höskuldur í Bjórskólanum lofaði mér að smakka frumútgáfuna af Úlfi sem reyndar var mun beiskari og meiri bjór en endalega útkoman.    Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að

„Úlfur er enn í dag einn besti IPA bjór sem menn fá í ÁTVR…..“

……enda oftast alveg brakandi ferskur.

Það er svo sem ekki ætlun mín að rekja allar perlurnar sem Borg hefur skapað í gegnum tíðina en það væri óvirðing við bjórsmiðina að nefna ekki bombur á borð við Giljagaur, geggjaða jólabjórinn sem  nú er kominn til að vera.  Giljagaur Barleywine er dæmi um bjór sem skemmtilegt er að geyma og þroska í mánuði, ár eða jafnvel áratugi og finna hvernig hann tekur dásamlegum breytingum með tímanum.  Þetta er reyndar eitthvað sem Borg brugghús hefur á undanförnum árum í raun innleitt á íslenskan markað, viljandi eða ekki ég skal ekki segja, það hefur amk nú skapast sú hefð hjá ört vaxandi hópi fólks að hamstra árstíðarbjór frá Borg og prófa að þroska eins lengi og menn hafa þolinmæði í og sjá hvað gerist.  Ég á enn tveggja ára Giljagaur í skúrnum mínum bara svo það komi hér fram.

Árstíðarbjór og samstarfsverkefnin

Borg bjór er oft á tíðum mjög góður til geymslu

Talandi um Árstíðarbjór en það fyrirbæri er nokkuð fyrirferðarmikið hjá Borg, þ.e.a.s bjór sem kemur einungis út á ákveðnum tíma árs og svo þurfa menn að bíða í ár eftir næstu útgáfu.  Þetta er t.d. bjór á borð við Úlf Úlf sem kemur út í apríl og er líklega fyrsti 1.apríl bjór veraldar?  Jólabjórinn, Páskabjórinn þeirra og Oktoberfestbjórinn er alltaf breytilegur frá ári til árs, þetta árið eru þeir meira að segja tveir oktoberfestbjórarnir, Gréta og Hans.

Svo skiljum við ekki við þessa upptalningu án þess að nefna Surtinn.  Surturinn er, eins þverstæðukennt og það kann að hljóma“ ljósið í myrkum febrúar.  Surturinn er það sem gerir Þorrann skemmtilegan að mínu mati en ár hvert gefur Borg út nýjan Surt í kringum Þorra.  Surtur er alltaf öflugur bjór, imperial stout sem hefur náð allt að 15% áfengis.  Í seinni tíð hafa þeir meira að segja komið með nokkra mismunandi Surta í einu.  Þegar ég lék lausum hala á Skúla bjó ég til agnar litla hátíð í kringum útgáfu Surts sem ég kallaði  bara „Surtsdaga“ en mikil tilhlökkun hefur verið fyrir þessa daga á mínum bæ ár hvert.  Ég get varla beðið eftir næstu Surtsdögum þegar þetta er ritað, hvaða kræsingar koma þeir með næst, reyndar veit ég aðeins en má ekki segja?

Annað sem Borg er að verða dálítið frægt fyrir hér heima eru samstarfsbjórarnir þeirra eða „collab“ bjór eins og menn kalla það.  Hér erum við að tala um bjór sem Borg bruggar með einhverjum af bestu brugghúsum veraldar, við erum að tala bjór á borð við Fjólubláa Höndin með Arizona Wilderness,   Smugan með 7Fjell, og nú síðast hinn dásamlegi Aycayia með Cigar City til að nefna það helsta.  Það verður spennandi að fylgjast með þessari þróun í framtíðinni.

Snillingarnir á bak við ölið

Stulli, Valli og Árni.  Mynd fengin að láni af fésbókarsíðu Borg Brugghúss

En hverjir eru svo á bak við Borg brugghús, þ.e.a.s hverjir skipta máli?  Í gegnum bjórskrif mín og ekki síst Skúla Craft Bar á sínum tíma hef ég náð að kynnast galdramönnunum á bak við brugggræjurnar af eigin raun.  Í upphafi var það bara Stulli (Sturlaugur Jón Björnsson) sem fékk að leika lausum hala í brugghúsinu og það er sko ekki neitt „bara“.  Stulli er sprenglærður andskoti sem svo sannarlega kann sitt fag.  Hann tók bruggmeistarann frá American Brewers Guild og starfaði um tíma með Vinnie hjá Russian River sem menn ættu að þekkja sem eitt mest “hypaða” brugghús veraldar.  Það á hypið líklega fyllilega skilið þannig að það er í góðu lagi.  Á bak við gríðarlega myndugt skeggið er að finna vinalegan og sérdeilis rólegan gaur sem gaman er að spjalla við um heima og geima.  Reyndar kynntist ég Stulla fyrst í gegnum góð ráð á netspjalli heimabruggara þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í heimabrugginu í Danmörku fyrir fullt af árum.

Borg fjölgaði síðar bruggmeisturum um helming þegar Valli bættist í hópinn en Valli, öðru nafni Valgeir Valgeirsson, er sérvitri snillingurinn á bak við meistaraverkið Lava stout sem verður að teljast tímamótaverk og brautryðjandi bjór á sínum tíma.  Valli lærði við Heriot-Watt University í Edinborg og starfaði síðar  hjá Heather Ale Brewery í Skotlandi þar sem hann stútfyllti reynslubankann sinn af töfrabrögðum sem við erum að njóta í dag hér heima.  Valli hlaut enn fremur starfsþjálfun hjá Gourmet Bryggeri í Danmörku sem er sko ekkert slor.   Valli er líkt og Stulli yfirvegaður og rólegur karl með ríka réttlætiskennd og ef maður hefur gaman að para bjór og mat saman þá er Valli maðurinn sem maður vill hafa með á hliðarlínunni enda mikið áhugmál hans.

Nýjasti meðlimurinn er svo gæðablóðið Árni Theodor Long, margslunginn heimabruggari til fjölda ára.  Hann bættist í hópinn fyrir nokkrum árum og má segja að hann virki eins og límið sem bindur þetta allt saman.  Nei ég segi svona, Árni er góði karlinn sem gott er að ræða við og gaman er að tralla með á góðri stundu.  Ef Stulli er maltið, og Valli humlarnir þá væri Árni gerið, allt í frábæru jafnvægi.

Svo þarf að nefna annan snilling til sögunnar, manninn sem passar upp á að allt fari nokkuð vel fram, gaurinn sem hefur hemil á strákunum, eðalmennið sem á mikinn þá þátt í að koma Borg á blað hér heima og erlendis.  Karlinn sem þú talar við ef þig langar að dansa með galdramönnunum á Borg, rokkarinn sem býr yfir öllum leyndarmálunum, veit hvað er í pípunum og svona mætti lengi telja.  Við erum að tala um stórmennið Óla Rúnar Jónsson, rokkarann síkáta, „Borgarstjóra“ Borgar Brugghúss held ég að við getum kallað hann með góðri samvisku en á ensku myndi það útfærast general manager.  Þetta er maðurinn sem sjaldan er með á myndunum en er alltaf með í ráðum sem er undarlegt því drengurinn er fjallmyndarlegur.

IMG_4955.JPG
Skúli Rauðöl mótaður @Borg Brugghús. Árni, Freysi og Valli

Já mér hefur hlotnast sá heiður í gegnum tíðina að eiga náin samskipti við þessa eðalmenn og stendur kannski uppúr samstarf okkar þegar við skópum saman alveg nýjan bjór, bjór sem mér finnst reyndar með betri Borg bjórum þarna úti (er auðvitað alls ekki hlutlaus), bjór sem um þessar mundir fæst einungis á krana á Skúla Craft Bar en verður vonandi aðgengilegri í framtíðinni?  Við erum að tala um Skúla Rauðöl, 5% humlað amerískt rauðöl með Mosaic og Simcoe humlum í dásamelgu jafnvægi við maltið.   Ég verð ævinlega þakklátur fyrir að fá að upplifa það að eigin raun hvernig er að gera bjór í alvöru brugghúsi með mönnum sem lifa fyrir fagið.  Ég hvet fólk hér með til að trítla niður á Skúla Craft Bar og prófa herlegheitin.

Hvað er svo í pípum?
judasBorg mun vonandi halda áfram að ferja í okkur eðalöl um ókomna tíð, það er amk ekkert útlit fyrir annað.  Það ríkir hins vegar ævinlega mikil leynd yfir því sem menn eru að bardúsa bak við tjöldin hjá Borg, við höfum þó fengið nokkra „tísera“ á fésbókarsíðu þeirra, t.d. er eitthvað súrt og spennandi að þroskast á eikartunnum en Guð má vita hvenær og við hvaða tækifæri við fáum að sjá hvað úr verður.  Svo verða tveir Páskabjórar á næsta ári og annar þeirra verður Júdas, 11,5% quadrupel endurfæddur nema að þessu sinni er hann  þroskaður í koníakstunnum í 6 mánuði.  Sá verður flottur.  Surtur 30 verður svo aftur á næstu Surtsdögum ásamt fleirum á ég von á en hann er þegar kominn á flöskur og mun þroskast vel fram á næsta Þorra.
Svo kreisti ég uppúr Óla Rúnari smá upplýsingum um jólabjórinn en að þessu sinni er það Askasleikir Nr 45 sem er 5.8% Amber Ale  sem að sjálfsögðu er þroskaður á alvöru öskum, sérinnfluttum fyrir verkefnið, nema hvað.  Óli er dálítið spenntur fyrir þessum en hann segir þá vera að prófa nýtt og spennandi blautger sem mun gefa bjórnum djúsí og mjúka áferð. Svo minnti hann mig á næsta samstarfsbjór með Four Winds í Kanada  (Brittish Colombia) sem er spennandi bruggús sem stofnsett var árið 2013.  Ég hef ekki smakkað bjór frá þeim en allt umtal lofar verulega góðu.  Bjórinn hljómar vel og hlakka ég gríðarlega til að smakka hann.  Óli segir að bjórinn muni verða súrbjór brugguðum með dularfullu geri sem Four Winds gaurarnir fluttu með sér hingað fyrir þetta verkefni.  Dagsetning er ekki komin en fljótlega segir Óli, bjórinn kúrir núna á krækiberjum og bláberjum í þessum skrifuðum orðum.

Já það eru spennandi tímar sem við lifum á í dag og ljóst að Borg mun halda okkur við efnið næstu árin!

Hans frá Borg!

wp-1475699320142.jpgÞað má eiginlega segja að ég hafi beðið eftir þessum bjór síðan 2014 þegar Gréta kom fyrst frá Borg.  En þá endað ég umfjöllun mína um Grétu með eftirfarandi :

“…. Þetta er bara nokkuð flottur og skemmtilegur bjór.  Svo er spurning hvenær Hans kemur út?  Varður það oktoberbjórinn að ári eða bara næsti bjórinn frá Borg?“

Alla vega, Hans nr. 44 er nú kominn tveim árum síðar til að styðja við systur sína endurfæddu, Grétu , sem einn af tveim Oktoberfestbjórum frá Borg þetta árið.  Hans er þýskur reykbjór eða rauchbier sem líklega er einn af mest krefjandi bjórstílum þarna úti.  Það er alla vega óhætt að segja að fólk verður að vita fyrirfram útí hvað það er að fara.

Rauchbier


..eins og nafnið bendir til er reyktur bjór, þ.e.a.s bjór með reyk í bragði, hvað annað?  Þessi bjórstíll, reyktur bjór,  var hér áður fyrr eiginlega allsráðandi ef svo má segja því fram til byrjun 19. aldar áttu bruggarar lítinn möguleika á að þurrka maltið sitt nema yfir opnum eldi.  Tæknin til að stjórna þurrkuninni var einfaldlega ekki til staðar. Það var vissulega misjafnt hvaða eldsneyti menn notuðu, en hvort sem það var gras, viður, kol eða eitthvað annað þá enduðu menn alltaf með reykt malt að einhverju leiti.  Það var því al vanalegt að finna eitthvað reykbragð af bjór þess tíma.  Þegar menn fóru svo að geta stjórnað þurrkuninni betur t.d. með tilkomu steikingarvéla Wheelers upp úr 1817 fór reykbragðið að hverfa almennt úr bjór.  Reykurinn þótti þá vera óæskilegt aukabragð.  Það voru þó einhverjir sem héldu tryggð við gamlar brugghefðir,nefnilega bjórgerðirnar í og í kringum Bamberg í Bæjaralandi.  Þessar bjórgerðir notuðu áfram viðareld til að þurrka maltið sitt og þannig hefur þessi bjórstíll, rauchbier, varðveittst til dagsins í dag.  Bamberg  er í dag vagga reykbjórsins og þaðan kemur líklega sá þekktasti þeirra allra, Aecht  Schlenkerla Rauchbier.

Reykbjór er eins og fyrr segir dálítið krefjandi bjór í fyrstu en eins og með allt nýtt í bjórveröldinni þá þarf maður að smakka með opnum hug og alltaf meira en bara einn eða tvo sopa.  Reykbjór er nefnilega dálítið spes í fyrstu tilraun en „venst“ furðu fljótt.  Bjórstíll þessi er auk þess ofsalega skemmtilegur til matargerðar og matarpörunnar.  Þess má geta að við Íslendingar erum sko ekkert nýgræðingar í þessum stíl því Surt 30 frá Borg eru flestir farnir að þekkja, kolsvarti djöfullinn sem bruggaður er með taðreyktu malti og menn keppast við að ýmist hata eða elska.

Hans nr. 44

Í glasi er þetta undur fagur bjór, rauðbrúnn að lit með þétta notalega froðu.  Það stígur mildur reykur úr glasinu en með dulítlu sætu korni með.  Notalegt verð ég að segja.  Í munni erum við með mun minni reyk en ég bjóst við, hann er vel merkjanlegur það er klárt en langt frá því að vera yfirdrifinn.  Við erum hérna með fallega sviðsmynd þar sem bruggmeistarar Borg Brugghús fá að sýna okkur magnað verk þar sem reykur stígur dans við sætt malt og beiska humla allt saman í svo hárfínu jafnvægi.  Reykurinn hverfur eiginlega þegar líður á bjórinn í sætt kornið en beiskjan vegur fallega á móti.  Þannig erum við með dálítið af ristuðum nótum, mildan reyk, þægilega sætu og velkomna beiskju í bjór sem gefur flotta fyllingu og svo langt notalegt eftirbragð.
Þessi bjór er rakinn matarbjór hvort sem eldað er úr honum eða hann paraður með kræsingunum.  Ég sé fyrir mér stórkostlegan jólabjór sem mun ganga vel með flestu því sem við Íslendingar maulum yfir jólin.  Liturinn, svona rauðbrúnn með hvíta húfu gengur einnig fullkomlega upp.  Ég get sagt ykkur að þennan mun ég kaupa vel af og láta standa í myrkri fram að jólum.

Takk fyrir mig Borg, flottur reykbjór sem ég tel að sé langt frá því að vera of krefjandi fyrir almúgann.

Aycayia Cigar City / Borg samstarf !

20160915_183052 (1).jpg

AyCayia er orðinn að veruleika veiii!   Ég hef beðið eftir þessum bjór af mikilli óþreygju núna í næstum því heilt ár, samstarfsbjór Borgar og Cigar City Brewing, einu farsælasta brugghúsi Bandaríkjanna og í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum.  Bjór þessi á sér heilmikla sögu, sögu sem hefst í lok september 2015 með einni af þessum hugdettum sem stundum bara detta í kollinn. Ég var á þessum tíma á leið á bjórhátíð í London, Route CBC til að smakka bjór og ræða við bjórsmiðina eins og menn gera jú á svona hátíðum.  Ég var mjög spenntur því hátíðinni var skipt upp í nokkra staði eða “event” með mismunandi „thema“, á einum staðnum var amerískt thema, bara bjór og bruggarar frá nokkrum af bestu brugghúsum Bandaríkjanna á heilum 50 krönum takk fyrir , við erum að tala um Funky Buddah, Jake Wakefield, Lost Abbey, The Other Half og svo Cigar City ásamt 12084931_10155993716000018_2131787545_ofleirum.  Frábært tækifæri til að kynnast þessum brugghúsum betur.  Til gamans má nefna að guttarnir frá Borg voru einnig á þessari hátíð með bjórinn sinn á norrænum event og slóu auðvitað rækilega í gegn.

En að hugmyndinni, ég hafði laumað tölvupósti á Joey Redner, stofnanda Cigar City,fyrir ferðina þar sem ég eiginlega mælti mér mót við þessa kappa á hátíðinni.  Við hittumst svo fyrir rest á CBC og ræddum málin yfir góðum bjór, eða bjórum…allt of mikið af bjórum reyndar en það er önnur saga og reyndar mjög skemmtileg en skoðum það síðar. Mig langaði nefnilega að reyna að fá Cigar City til landsins að brugga bjór með íslensku brugghúsi og þar sem Borg er í miklu uppáhaldi hjá mér var borðleggjandi að bera það undir Óla Rúnar og co hjá Borg við sama tækifæri. Viti menn, Joey tók vel í hugmyndina og Óli og félagar sömu leiðis.  Á þessum tíma var ég ekki búinn að koma mínu eigin brugghúsi á laggirnar, annars hefði þetta líklega getað orðið Cigar City/nano collab, eða hvað, æ ég veit ekki?  En eftirleikurinn var eins og spennandi framhaldssaga því eftir að hafa leitt þessar hetjur saman via tölvupóst fylgdist ég með bjór verða til á prenti í gegnum bréfasamskiptin milli Wayne bruggmeistara Cigar City, Stulla, Árna og Valla. Það er ævintýralegt að fá að vera fluga á vegg og fylgjast með álíka snillingum í bjórgerð ræða humla, ger og bjórstíla og kasta hugmyndum sín á milli, hugmyndum sem svo loks enda með ákvörðun og fyrir rest bjór. Við erum að tala um tugi pósta þar sem hvert smáatriði var rökrætt og endurskoðað og  svo rökrætt aftur áður en næsta atriði var tekið fyrir.  Það er afar sjaldgæft að sjá svona mikinn undirbúning fyrir samstarfsbjór.  Ég var sérsteklega spenntur þegar menn ræddu humlana, við erum að tala um humalprófíl sem maður hefur bara ekki séð í bjór áður.  Það fór hamingju straumur um mann þegar Wayne fór að tala um öll þessi suðrænu humlaafbrigði, tegundir á borð við Azacca, Lemon Drop og Pacific Jade ásamt haug af öðrum spennandi humlum.  Listinn endaði loks í  Equinox, El Dorado, Eureka, Calypso, Mandarina Bavaria ásamt þekktum félögum Citra, Mosaic og Magnum.   Þetta er dásamleg upptalning þó ég viðurkenni að þekkja bara örfáa humla á listanum.  Kannski maður prófi eitthvað af þessu í næsta brugg?

En allt endaði þetta svo með uppskrift sem á blaði hljómaði einfaldlega eins og fullkomið listaverk og nú er svo loks komið að því að bragða á þessu meistarastykki.

Nafnið Aycayia er eiginlega eitt og sér stórkostlegt, maður einhvern veginn veðrast allur upp og langar að smakka þennan drykk hvað sem það kostar.  Aycayia er nafn á goðsögn frá karabíska hafinu,  „sú með hina fögru rödd“ sem  var lostafull hafmeyja þekkt fyrir að tæla til sín karlmenn með fallega sköpuðum líkama sínum og loforðum um góðar stundir en svo rændi hún þá í staðinn frjálsum vilja.  Já ég er ansi hræddur um að bjórinn beri nafn með réttu, suðrænn og tælandi sem rænir mann í raun öllu viti ef maður fer ekki varlega.

Aycayia er vægast sagt stórkostlegur bjór, við erum að tala um suðræna hamingjubombu á formi 7% IPA.  Í glasi er hann gylltur og mattur með dúnamjúkan froðuhaus.   Um leið og maður hellir honum finnur maður tælandi angan af suðrænum ávöxtum, ananas, perur og mango til að nefna eitthvað.  Í munni er hann hreint út sagt dásamlegur, spriklandi gosið lífgar strax upp á bragðlaukana og gerir þá klára fyrir humlaseríuna sem mynda flókið samspil ávaxta, beiskju og blóma.  Hér má finna heila ávaxtakörfu af suðrænum ávöxtum af öllum stærðum og gerðum.  Ég fer ekki nánar út í það því hér verða menn að lofa sínum eigin bragðlaukum að ákveða nákvæmlega hvaða ávexti þeir pikka upp en það er einmitt svo einstaklingsbundið.  Sætan er langt í frá að vera of mikil því bjórinn er nokkuð þurr á móti.  Eftirbragð er langt og seyðandi og manni einhvern veginn er alveg sama þó maður eigi eftir að tapa áttum.  Hver sopi kallar á þann næsta en þannig á það líka að vera.

Hér erum við með dæmi um bjór sem að mínu mati gengur upp frá A til Ö, nafnið, merkimiðinn og drykkurinn, allt pottþétt.  Þvílíkur bjór!   Það verður slegist um þennan þegar hann dettur í ÁTVR.