Sleipnir frá Ölvisholti

Oktoberfestbjórinn eða haustbjórinn frá Ölvisholti brugghús, amerískur pale ale, 5.4%.  Þetta er bara hinn bærilegasti pale ale, aðeins beiskja sem hvílir á nokkuð áberandi og ristuðum maltgrunni.  Meðal fylling og ljúft eftirbragð.  Alls ekki galið val þetta árið.

Pliny the Azacca!

Azacca Pliny klónninn er kominn vel á veg.  Ég svo sem veit að þessi bjór verður ekkert líkur Pliny enda humalprófíllinn allt allt annar.  Við erum að tala um Warrior, Chinook, Amarillo, Mosaic, Cascade, Nelson og svo haug, HAUG af Azacca!   Bjórinn er núna kominn í 8.9% og er ég bara nokkuð sáttur.  Hann bragðast líka mjög vel á þessu stigi og ég er ekkert búinn að þurrhumla!  Fyrsti skammtur af humlum fóru í gertanginn í dag, nýr skammtur eftir 4-5 daga og svo fer að styttast í krana 🙂  Hlakka bara helvíti mikið til.

Næsti bjór með framandi humlum.

20160917_144527-1
Já það er komið að næsta bjór, ég verð að fara koma bjór á dælurnar á nano.  Ég á fullt af alls kona humlum, Amarillo, Chinook, Cascade, Nelson, Mosaic ofl.  Humlar sem þarf að nota en svo er maður alltaf spenntur fyrir nýjungum.   Ég var því afar kátur þegar Hrafnkell (brew.is) sýndi mér glænýja sendingu af Azacca, humlar sem ég einfaldlega hafði ekki heyrt um fyrr en nýlega í tengslum við Cigar City /Borg collabið.

Azacca er nafn á guði landbúnaðar á Haiti, amerískt afbrygði sem er tiltölulega ný til komið á markað.  Lýsingarnar á eiginleikum hans eru lofandi „dual-use hop, giving off a pleasant mix of tropical fruits kissed with citrus. On the palate this hop is particularly spicy, with mango, pineapple and some pine-like and tangerine-esque qualities“.

Alla vega mig langar að nota þennan í næsta bjór og haug af honum, ég mun svo nota allt hitt líka til að klára lagerinn minn.  Grunnuppskriftin verður Pliny klónn frá Kela, bjór sem ég hef gert áður og er gríðarlega góður nema nú verður hann jú með bland í poka humlum og vonandi einhver tropical áhrif frá Azacca 🙂

Aycayia Cigar City / Borg samstarf !

20160915_183052 (1).jpg

AyCayia er orðinn að veruleika veiii!   Ég hef beðið eftir þessum bjór af mikilli óþreygju núna í næstum því heilt ár, samstarfsbjór Borgar og Cigar City Brewing, einu farsælasta brugghúsi Bandaríkjanna og í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum.  Bjór þessi á sér heilmikla sögu, sögu sem hefst í lok september 2015 með einni af þessum hugdettum sem stundum bara detta í kollinn. Ég var á þessum tíma á leið á bjórhátíð í London, Route CBC til að smakka bjór og ræða við bjórsmiðina eins og menn gera jú á svona hátíðum.  Ég var mjög spenntur því hátíðinni var skipt upp í nokkra staði eða “event” með mismunandi „thema“, á einum staðnum var amerískt thema, bara bjór og bruggarar frá nokkrum af bestu brugghúsum Bandaríkjanna á heilum 50 krönum takk fyrir , við erum að tala um Funky Buddah, Jake Wakefield, Lost Abbey, The Other Half og svo Cigar City ásamt 12084931_10155993716000018_2131787545_ofleirum.  Frábært tækifæri til að kynnast þessum brugghúsum betur.  Til gamans má nefna að guttarnir frá Borg voru einnig á þessari hátíð með bjórinn sinn á norrænum event og slóu auðvitað rækilega í gegn.

En að hugmyndinni, ég hafði laumað tölvupósti á Joey Redner, stofnanda Cigar City,fyrir ferðina þar sem ég eiginlega mælti mér mót við þessa kappa á hátíðinni.  Við hittumst svo fyrir rest á CBC og ræddum málin yfir góðum bjór, eða bjórum…allt of mikið af bjórum reyndar en það er önnur saga og reyndar mjög skemmtileg en skoðum það síðar. Mig langaði nefnilega að reyna að fá Cigar City til landsins að brugga bjór með íslensku brugghúsi og þar sem Borg er í miklu uppáhaldi hjá mér var borðleggjandi að bera það undir Óla Rúnar og co hjá Borg við sama tækifæri. Viti menn, Joey tók vel í hugmyndina og Óli og félagar sömu leiðis.  Á þessum tíma var ég ekki búinn að koma mínu eigin brugghúsi á laggirnar, annars hefði þetta líklega getað orðið Cigar City/nano collab, eða hvað, æ ég veit ekki?  En eftirleikurinn var eins og spennandi framhaldssaga því eftir að hafa leitt þessar hetjur saman via tölvupóst fylgdist ég með bjór verða til á prenti í gegnum bréfasamskiptin milli Wayne bruggmeistara Cigar City, Stulla, Árna og Valla. Það er ævintýralegt að fá að vera fluga á vegg og fylgjast með álíka snillingum í bjórgerð ræða humla, ger og bjórstíla og kasta hugmyndum sín á milli, hugmyndum sem svo loks enda með ákvörðun og fyrir rest bjór. Við erum að tala um tugi pósta þar sem hvert smáatriði var rökrætt og endurskoðað og  svo rökrætt aftur áður en næsta atriði var tekið fyrir.  Það er afar sjaldgæft að sjá svona mikinn undirbúning fyrir samstarfsbjór.  Ég var sérsteklega spenntur þegar menn ræddu humlana, við erum að tala um humalprófíl sem maður hefur bara ekki séð í bjór áður.  Það fór hamingju straumur um mann þegar Wayne fór að tala um öll þessi suðrænu humlaafbrigði, tegundir á borð við Azacca, Lemon Drop og Pacific Jade ásamt haug af öðrum spennandi humlum.  Listinn endaði loks í  Equinox, El Dorado, Eureka, Calypso, Mandarina Bavaria ásamt þekktum félögum Citra, Mosaic og Magnum.   Þetta er dásamleg upptalning þó ég viðurkenni að þekkja bara örfáa humla á listanum.  Kannski maður prófi eitthvað af þessu í næsta brugg?

En allt endaði þetta svo með uppskrift sem á blaði hljómaði einfaldlega eins og fullkomið listaverk og nú er svo loks komið að því að bragða á þessu meistarastykki.

Nafnið Aycayia er eiginlega eitt og sér stórkostlegt, maður einhvern veginn veðrast allur upp og langar að smakka þennan drykk hvað sem það kostar.  Aycayia er nafn á goðsögn frá karabíska hafinu,  „sú með hina fögru rödd“ sem  var lostafull hafmeyja þekkt fyrir að tæla til sín karlmenn með fallega sköpuðum líkama sínum og loforðum um góðar stundir en svo rændi hún þá í staðinn frjálsum vilja.  Já ég er ansi hræddur um að bjórinn beri nafn með réttu, suðrænn og tælandi sem rænir mann í raun öllu viti ef maður fer ekki varlega.

Aycayia er vægast sagt stórkostlegur bjór, við erum að tala um suðræna hamingjubombu á formi 7% IPA.  Í glasi er hann gylltur og mattur með dúnamjúkan froðuhaus.   Um leið og maður hellir honum finnur maður tælandi angan af suðrænum ávöxtum, ananas, perur og mango til að nefna eitthvað.  Í munni er hann hreint út sagt dásamlegur, spriklandi gosið lífgar strax upp á bragðlaukana og gerir þá klára fyrir humlaseríuna sem mynda flókið samspil ávaxta, beiskju og blóma.  Hér má finna heila ávaxtakörfu af suðrænum ávöxtum af öllum stærðum og gerðum.  Ég fer ekki nánar út í það því hér verða menn að lofa sínum eigin bragðlaukum að ákveða nákvæmlega hvaða ávexti þeir pikka upp en það er einmitt svo einstaklingsbundið.  Sætan er langt í frá að vera of mikil því bjórinn er nokkuð þurr á móti.  Eftirbragð er langt og seyðandi og manni einhvern veginn er alveg sama þó maður eigi eftir að tapa áttum.  Hver sopi kallar á þann næsta en þannig á það líka að vera.

Hér erum við með dæmi um bjór sem að mínu mati gengur upp frá A til Ö, nafnið, merkimiðinn og drykkurinn, allt pottþétt.  Þvílíkur bjór!   Það verður slegist um þennan þegar hann dettur í ÁTVR.

Gréta gengur aftur!

Borg hefur ákveðið að endurvekja Grétu baltic porter frá 2014 sem svar við háværum röddum pöpulsins sem er bara gott mál því nú fær maður að sannreyna hvort gott sé að geyma og þroska Grétu.  Ég man nefnilega að menn voru að velta þessu fyrir sér á sínum tíma og svarið var í raun einfalt…hver veit, prófaðu bara! Ég hafði amk ekki hugmynd um hvernig Gréta myndi þroskast.  Mér tókst að geyma eina flösku.

Nú veit ég ekki alveg en mig grunar að uppskriftin sé ekki alveg nákvæmlega sú sama og síðast en alla vega þegar ég ber saman nýju og gömlu Grétu kemur eftirfarandi í ljós:

Gamla Gréta er einhvern veginn mun skemmtilegri í nefi, við erum að tala um sætan vínkeim, kirsuber jafnvel og svo rúsínur, mjög tælandi og elegant.  Í nýju Grétu vantar dálítið fúttið í nefi en við erum þó með ögn ristað korn, súkkulaði og eins og þroskaðan banana?

Í munni hins vegar er hin nýja Gréta mun skemmtilegri, miklu líflegri og hressilegri. Kaffi, ristað korn og dökkt súkkulaði, allt eftir bókinni. Mjög flottur porter með notalega fyllingu.  Gamla Gréta hefur hins vegar ekki elst nægilega vel, hún hefur tapað dálítið karakternum.   Ristin er mun minni og sætur maltkeimurinn er alls ráðandi, minnir dálítið á bock. Það vantar einhvern vegin samheldnina ef ef svo má að orði komast.

Þetta er flott framtak hjá Borg og bara helvíti vel  lukkaður bjór og það var gaman að læra það að Grétu skal ekki geyma heldur njóta hér og nú á meðan færi gefst. Hver veit svo hvaða bjór Borg endurvekur næst ;)…..ég ætla hér með að leggja til Þvörusleiki eða Teresu.

En hvað er baltic porter? Rennum yfir það. 

Baltic porter er upphaflega kominn frá hinum baltnesku ríkjum svo sem Lettlandi, Eistlandi, Litháen, Póllandi og jafnvelRússlandi og Svíar hafa einnig verið bendlaðir við stílinn. Á 18. öld barst hinn enski porter til þessara ríkja og svo hafa menn farið að gera sína eigin útgáfu.  Þannig varð baltic porter til sem túlkun þessara ríkja á stílnum.  Stíllinn er þó ólíkur hinum enska porter hvað varðar áfengismagn sem getur orðið töluvert og er því kannski frekar hægt að líkja stílnum við hinn rómaða Russian Imperial Stout,kannski heldur langsótt?  Baltic porter þarf alls ekki að vera af gerðinni öl eða yfirgerjaður heldur er eiginlega algengara að um lager sé að ræða.  Ég veit, þetta hljómar ekki alveg rétt eða hvað?  Þetta er mjög maltaður stíll, mikið af korni í honum og því oft nokkuð sætur og þægilegur.  Þrátt fyrir háa áfengisprósentu  þá skortir hann þróttinn sem maður fær í frændum hans imperial stout.


Takk fyrir mig Borg

Digri Saison w. Brett

Sumir komu færandi hendi á nano innlitið um daginn. Digri brugg (Gunnar Óli, Andri Þór og Ingi Már) komu td með poka af heimalöguðu stöffi. Ma var það þessi hér tunnuþroskaður saison m. brettanomyces geri.  Þetta er einfaldlega frábær saison en kom mér ekkert á óvart þar sem ég hef smakkað öl frá þeim áður!  Þessi er flottur i nefi ferskur og funky með ögn ávaxtakeim og svo viður. Í munni er hann ferskur og notalega þurr og brettaður með sætum nótum i restina og einhver ávöxtur ss grape. Viðarkeimurinn skín í gegn. Ég þurfti bókstaflega að rífast um glasið við frúnna sem ætlaði að drekka hann frá mér.

Ég þakka pent fyrir mig strákar…collab???

nano bjórbar opnar formlega

wp-1473289616588.jpgHinn 3. september 2016 ákvað ég að opna nano bruggbar „formlega“.  Að sjálfsögðu bara enn ein afsökunin fyrir að fá góða gesti í heimsókn og svo er þetta alltaf viss pressa á að klára það sem klára þarf.  Já og er ekki alltaf gaman að fá smá hrós fyrir verkin sín? Ég held að ég hafi náð að klára nánast allt og telst bruggbarinn í raun full kláraður.  Það má þó alltaf ditta að og bæta við.  T.d. er næsta skref að smíða handföng á dælurnar tvær.

Alla vega, það var mjög góðmennt á þessum viðburði sem fór fram sem innlit milli kl 16 og 20.  Tvær gerðir bjórs voru í boði á dælu Paradox IMP og Punk Wanna B.  Ég verð að segja að Punkinn var ofsalega vel lukkaður og ég er afar stoltur yfir feedbackinu frá gestum.  Það er mikilvægt að heyra hvernig mönnum líkar bjórinn svo framþróun geti átt sér stað, ég er þó nokkuð viss um að flestir myndu ekki gefa slæma dóma en Hauk Heiðar Leifsson treysti ég til að koma með ófegrað álit og það sama á við um þá félega í Digra brugghúsi Gunnar Óla, Inga Má og Andra Þór (Járn og Gler).  Ég má til með að bæta því við að allir þessir voru bara nokkuð ánægðir með ölið.   Bjórinn kláraðist um kl 19:00 en þá voru dósir frá Gæðingi í boði, Sumar Tumi og Micro og allir bara sáttir.

Ég vil svo bara þakka fyrir innlitið kæru vinir.  Hlakka til að fá ykkur aftur í smakk.