
New England style IPA er fyrirbæri sem maður er að heyra æ oftar í bjórveröldinni hér heima. Ég skal viðurkenna að það er í raun ekki nema nokkrir mánuðir síðan ég heyrði þetta hugtak fyrst. Hins vegar hef ég í gegnum tíðina alltaf verið hrifnastur af möttum og „mjúkum“ bjór, sá síaði tæri minnir mig of mikið á lager held ég. Fyrir mér á IPA að vera mattur t.d.. Höfuð einkenni New England IPA er einmitt það að hann er mattur og þéttur. Þessi bjórstíll er reyndar tiltölulega nýr af nálinni í Bandaríkjunum og virðist nú vera að ná gríðarlegum vinsældum þar. Sumir segja að þessi stíll hafi byrjað með Heady Topper frá Alchemist, líklega einn eftirsóttasti bjór veraldar? Ég skal ekki segja en ég get þó sagt það að þessi bjórstíll er algjört hnossgæti. Einkennandi fyrir stílinn auk útlits er mjúk áferð og safaríkir suðrænir humlar. Það er mikið af humlum í bjórnum en ekki mikil beiskja, eða beiskjan er ekki í aðalhlutverki. Þetta er eitthvað sem mig langar að brugga á nano og því hef ég nú ákveðið að láta vaða. Ég ætla að hella mér út í tilraunir. Það má því búast við að ýmsar útgáfur detti undir á nano þar til fullkomnun er náð. Ef einhver þarna úti er með góð ráð fyrir mig þá er um að gera að deila því hér 🙂