
Nano er nafn á pínu pínu litla bruggbarnum mínum sem staðsettur er í einu horni í bílskúrnum mínum og er líklega minnsti bruggbar veraldar? Heimabruggaður bjór flæðir þar á tveim krönum sem ég reyni að hafa gangandi nokkuð stöðugt. Bjórinn er bruggaður af alúð og sál og er eins konar útrás fyrir sköpunargleði mína. Barinn smíðaði ég svo bara í raun til að sanna fyrir sjálfum mér að ég gæti sett nagla í spítu og auðvitað til að skapa huggulegt umhverfi fyrir heimabruggið. Hér er allt frítt en gestir sem smakka hjá mér ölið þurfa samt að borga með endurvarpi (feedback) svo ég viti hvað ég er að gera.
Sjálfur heiti ég Freyr Rúnarsson, sérfræðingur í heimilislækningum, sameindalíffræðingur og mikill bjóráhugamaður. Ég hef stúderað bjórinn síðan ég man eftir mér og bloggað um hann í mörg ár, fyrst sem Bjórbókin á http://www.bjorbok.net, svo á bjorspeki.com sem enn er lifandi og loks hér. Ég afrekaði það einnig að byggja upp að mínu mati besta bjórstað Íslands, Skúla Craft Bar þar sem ég fékk m.a. tækifæri að skapa frá grunni magnaðan bjór og brugga hann svo með Borg brugghús. Bjórinn heitir Skúli rauðöl og er frábært amerískt rauðöl eða red IPA með smá rúg og haug af Mosaic og Simcoe humlum. Þó ég hafi gert þennan bjór með barinn í huga þá er þetta ekki eiginlegur húsbjór fyrir Skúla og mun hann ef allt gengur eftir koma í almenna sölu ÁTVR. Ég er ekki lengur við stjórnvölin á Skúla Craft bar en vona að núverandi stjórnendur muni halda áfram að gera þarna góða hluti.
Hér á síðunni mun ég fjalla um bjór, brugghús og bjórbari almennt, minn eigin bjór líka og heimabrugg að sjálfsögðu og skoða dálítið bjór og matarpörun sem er sérlegt áhugamál. Ætli þessi síða taki ekki dálítið við af bjórspeki.com?
Hér fáum við nokkrar myndir af staðnum
Bakvísun: Aycayia Cigar City / Borg samstarf ! – nano