nano lifnar við!

Það hefur verið dálítið erfitt að horfa upp á tómar bjórdælur og gerkúta undanfarna mánuði.  Ég ákvað nefnilega að leggjast í framkvæmdir sem dróust á langinn en eru loksins búnar.  Sjálft brugghúsið þurfti flísar á gólf og svo smá uppfærslu til að gera allt meira vistlegt.  Nú er þetta klárt og meira að segja kominn bjór á kút fyrir nano bar.  Jább Belgian Mild Ale með léttu hoppi  skulum við kalla hann. Alls ekki mitt besta verk en alla vega ágætis byrjun. Svo er það stóra málið, fyrsti New England IPA bjórinn minn en ég hef lengi stefnt á að prófa mig áfram í þeim stíl, fyrir þá sem vilja prófa svona bjór þá er Borg brugghús einmitt að kynna núna einn slíkan á Kex sem þeir kalla Sæmund og er með mango.  Ég ákvað að henda í svona bjór í vikunni, við getum kallað hann NE Zombie pale þar sem ég notaði Zombie Dust uppskriftina frá Kela nema með þó nokkrum breytingum.  Ég minnkaði pale maltið en á móti hafði ég hafraflögur 300 g og hveitiflögur 300 g.  Svo eru 300g af Citra og Simcoe humlum í þessari dásemd (ég vona að þetta verði dásemd sko), 150 g við lok suðu og svo mun ca 150 g fara í þurrhumlun á næstu dögum.  Held að þetta geti ekki klikkað, þetta er þó tilraunalögun því næstu brugg munu verða fínpússun á þessum stíl.  Ég sé fyrir mér líka að taka Omnipollo tvist á þetta og gera einhvern sumar bjórmjólkurhristing með mango eða ferskjum ef vel gengur.

Það er gaman að vera kominn í gang aftur og það verður gaman að geta tekið á móti góðum gestum.  Svo má geta þess hve spennandi bruggun getur verið, í gær opnaði ég gamlan bjórkút sem ég hélt að væri tómur.  Ég ætlaði að þrífa kútinn og gera klárann fyrir sódavatn en viti menn, það var bjór í kútnum….ekki mikið bara ca 1 L eða varla það.  Lyktin var dásamleg upp úr kútnum.  ‘Eg mundi svo að ég hafði átt þetta eftir frá því í sumar, þetta var Paradox imp stout sem ég bruggaði í byrjun sumars og var bara helvíti góður.   Eftir að hafa þroskast þarna á þessum kút í þessa mánuði var hann orðinn virkilega flottur.  Jább gaman að þessu.

Mikkeller Bar, vísir að heimsveldi

010.jpg
Hair of The Dog Cherriy Fred from The Wood á Mikkeller Bar Viktoriegade.

Mikkeller er eitt þekktasta merkið í bjórheiminum í dag amk í „craft“ bjór veröldinni.   Allir sem spá eitthvað í eða brugga bjór vita um Mikkeller, dönsku bjórgerðina sem byrjaði sem heimabrugg í eldhúsi og er nú orðið stórveldi.  Mikkeller eða Mikkel Borg Bjergsø sem er stofnandi og heilinn á bak við bjórgerðina er það sem menn kalla flökku- eða farandsbruggari því hann bruggar ekki bjór sinn í sínu eigin brugghúsi heldur fær hann vinveitt brugghús um heim allan til að brugga bjórinn fyrir sig, oftast þó De Proef í Belgíu  Þetta hefur reyndar breyst með kaupum Mikkellers á gamla Alesmith brugghúsinu í San Diego á síðasta ári og verður spennandi að sjá hvernig það þróast.
En fyrir þann tíma var Mikkeller farandsbjórgerð og erfitt að nálgast bjórinn frá þeim nema í sérverslunum á stöku stað í Danmörku.  Reyndar komst Mikkeller furðu fljótt inn á Bandaríkjamarkað og varð fljótt vinsælt vörumerki þar.   Mikkeller var formlega stofnað árið 2006, sama ár slóu þeir í gegn með bjórinn sinn Beer Geek Breakfast sem valinn var besti bjór í heimi á Ratebeer.com (stærsta bjórsamfélag veraldar á netinu) og í kjölfarið jukust vinsældir Mikkellers á heimsvísu.  Eftirspurnin eftir bjór þeirra varð gríðarleg en erfitt var að komast í kræsingarnar.  Það var því himnasending fyrir bjóráhugafólk um heim allan þegar Mikkeller opnaði sinn fyrsta bar árið 2010,  Mikkeller Bar á Viktoriegade í Kaupmannahöfn.
020Loksins var hægt að fá þennan frábæra bjór bæði á flöskum og krana á einum stað.  Það má líka segja að hér væri kominn vísirinn af heimsveldi Mikkellers.  Vinsældir barsins og Mikkeller jókst gríðarlega á árunum á eftir og fólk flykktist á staðinn frá öllum heimsins hornum.  Þessar góðu viðtökur hvöttu Mikkel frekar í að opna fleiri staði í Kaupmannahöfn og nokkrum árum síðar opnaði bar nr tvö Mikkeller & Friends á Nørrebro og svo allir hinir koll af kolli.
Mikkeller bar er lítill bar þar sem lítið er lagt upp úr íburðum, bjórinn er það sem skiptir hér máli ekki flottar innréttingar.  Barinn samanstendur af tvískiptu rými og litlum bar í miðjunni með 20 krönum.   Hér getur verið erfitt að ná sætum eða borðum því það þarf lítið til að staðurinn verði troðfullur. Þegar mikið er að gera er nánast ómögulegt að fá ráð og ábendingar frá barþjónunum sem er frekar súrt því stór hluti af upplifuninni á svona bar er að fá að vita aðeins um það sem maður er að drekka.  Það er því ágætt að reyna að stíla inn á að mæta ekki á háannatímum ef maður vill njóta þess besta sem staðurinn hefur að bjóða.

Já það er gaman að koma á þennan stað og sjá hvar þetta byrjaði allt saman.  Barinn er enn í sama standi og þegar ég heimsótti hann fyrst árið 2011 ári eftir opnun því lítið hefur verið lappað upp á hann á þessum 6 árum sem liðin eru.  Hér finnur maður sko söguna í loftinu…

Kaupmannahöfn, bjórmekka!

140762_brus_9_photo_brus
BRUS brewpöbb á vegum To Öl í Kaupmannahöfn

Flestir sem eru að fikta við bjór í dag kannast við Mikkeller, danska farandsbjórsmiðinn sem, þar til mjög nýlega, bruggar bjór sinn bara í þekktum brugghúsum víðs vegar um heiminn en ekki í sínu eigin brugghúsi eins og venja er. Mikkeller, sem stjórnað er af hugmyndasmiðnum og snillingnum Mikkel Borg Bjergs∅ er í dag eitt stærsta nafn bjórheimsins og ég held að ansi margir bjórgerðarmenn og konur miði sig dálítið við hann.  Mikkeller er alla vega óhætt að segja að sé brautryðjandi í nútímabjórgerð en þar á bæ setja menn sér engin takmörk og bjór þeirra er gríðarlega eftirsóttur um heim allan.

Mikkeller hóf göngu sína í höfuðborg Danmerkur, Kaupmannahöfn 2006 og nokkrum árum síðar opnuðu þeir sinn fyrsta bar, Mikkeller Bar á Viktoriagade sem sló strax í gegn.  Hér var kominn reitur þar sem menn gátu drukkið hinn eftirsótta Mikkeller bjór ásamt bjór frá flottustu brugghúsum veraldar á þessum tíma.  Fyrir mína parta var þetta fyrsti vísirinn af bjórmekka í borginni því þó að á þessum tíma hafi verið nokkrir barir í Kaupmannahöfn sem voru farnir að bjóða upp á handverks bjór (aðalega belgískt öl) þá var Mikkeller bar í mínum huga það eina sem kallaði á mig sem bjórnörd, þeir voru einfaldlega með betri bjór í boði.   Reyndar hef ég alltaf verið spenntur fyrir N∅rrebro Bryghus í Kaupmannahöfn sem opnuðu dálítið áður en Mikkeller komst á kortið.  NB er brewpöbb sem bruggar margar tegundir bjórs sem þeir bjóða uppá á staðnum en auk þess er hluti staðarins lagður undir veitingahús þar sem „þemað“ er bjór og matur.  Það var t.d. á N∅rrebro Bryghus sem ég komst fyrst í snertingu við matar/bjórpörun fyrir alvöru.

Koelschip
Koelschip, staðurinn fyrir villibjórinn

En til að gera langa sögu stutta (lengri pistill kemur síðar), þá jukust vinsældir Mikkeller jafnt og þétt á árunum eftir opnun barsins og þeir fóru að bæta við börum á heims vísu sem og í höfuðborginni.  Í dag eru þeir með marga staði með mismunandi áherslum.  Staður númer tvö var Mikkeller & Friends sem þeir opnuðu með dönsku félögum sínum í To Øl.  Þessi staður var enn stærri og með enn fleiri krönum en Mikkeller barinn á Viktoriagade. To Øl var á þeim tíma byrjað að verða nafn í bjórheiminum, í dag hins vegar eru þeir orðnir mjög stórir og álíka þekktir og sjálfur kóngurinn Mikkeller. Fleiri staðir bættust svo við, svo sem Koelschip sem einblínir á sjaldgæfan belgískan villibjór og með því, við erum að tala um Cantillon, Oud Beersel, 3 Fonteinin ofl , Øl og Br∅d þar sem „þjóðarréttur“ Dana smurbrauð fær að njóta sín með sérvöldu öli frá Mikkeller og fleirum, WarPigs sem er líklega einn fárra staða í veröldinni sem býður uppá bjór frá Three Floyds sem eru einfaldlega insane bjórsmiðir.  Mikkeller og Three Floyds eiga staðinn saman og brugga bjórinn á staðnum.  Auk bjórs færst þarna alls konar kjöt sem er reykt í sérstökum reykofni á staðnum.  Dásamlegt!  Við erum ekki hætt með upptalninguna, nei Mikkeller rekur svo tvo Ramen to Bíiru staði í borginni, hér erum við með Japanskan „street food“ stað þar sem þú færð Ramen rétti með Mikkeller öli og svo er auðvitað flöskubúðin þeirra Mikkeller Bottleshop sem er sniðugt að skoða og birgja sig upp fyrir heimferðina, loks má nefna Mikropolis sem er lítill og notalegur kokteilbar með 10 Mikkeller krönum og flottu flöskuúrvali.  Hér kemurðu með vinina sem vilja ekki bjór, ef þú átt þannig vini.

Image result for warpigs brewpub
WarPigs, kjöt kjöt kjöt….og svo dásamlegur bjór með

Eins og ofantalið sé ekki nóg, þá er enn meira að skoða í Köben því To Øl, þessir snillingar sem að mínu mati hafa náð fram úr lærimeistara sínum Mikkel í bjórgerðinni.  Þeir hafa loksins opnað sinn eigin stað, BRUS sem er brewpöbb með 33 krönum með bjór sem bruggaður er á staðnum eða To Øl bjór sem bruggaður er um víða veröld.  Auk þess er á sama stað veitingastaðurinn Spontan þar sem fókusinn er á pörun bjórs og matar.  Spontan stendur undir nafni því matseðillinn er stöðugt að breytast því yfirkokkurinn, Christian Gadient sem er yngsti Michelin stjörnukokkur Dana, lætur bara ráðast hvað hann vill að verði á matseðlinum hverju sinni.   Þetta er eitthvað sem ég held að eigi eftir að slá í gegn í Danmörku á næstu misserum.  Loks til að hafa þá með þá er Evil Twin Brewing, sem er Jeppe Jarnit Bjerg∅, tvíburabróðir Mikkels tiltölulega nýlega búinn að opna lítinn bar í heimalandi sínu Danmörku.  Jeppe býr nefnilega í New York þar sem hann breiðir út boðskap sinn með T∅rst sem er fyrsti bar veraldar til að fá Michelin stjörnu.  Barinn í Kaupmannahöfn heitir Himmeriget og ég veit í raun sáralítið um staðinn.

Sem sagt, það er nóg um að vera í Kaupmannahöfn ef maður hefur áhuga á bjór og mat og því hefur nano ákveðið að skella sér til borgarinnar og taka þetta allt saman út.  Ég hef svo sem prófað  Mikkeller bar og Warpigs og já auðvitað N∅rrebro Bryghus en þá er það upptalið.  Það er því nóg eftir að prófa og skrifa um.  Ferðin hefst á morgun 14.11 og mun ég setja inn nánari umfjöllun þegar heim er komið.

Tveir flottir, Azacca Juice og Stone Dog Saison

Nú eru tveir á krana á nano og er ég nokkuð sáttur við þá. Azacca Juice 8.9% er double IPA (DIPA) með haug af azacca humlum sem gefa dásamlegt tropical bragð.  Í upphafi hafði ég nokkrar áhyggjur af honum, hann var of hvass og grænt aukabragð sem líklega hefur verið „acetaldehyd“ vegna of skamms gerjunartíma. Bjórinn er hins vegar að verða gríðarlega flottur núna.  Stone Dog Saison er 4.5% saison með rósapipar, muldum ķóriander ofl.  Virkilega þægilegur og mildur.  Er samt svo mikill humlafíkill að ég er að spá í að þurrhumla hann með einhverjum júsí humlum….er það eitthvað?

Pliny the Azacca!

Azacca Pliny klónninn er kominn vel á veg.  Ég svo sem veit að þessi bjór verður ekkert líkur Pliny enda humalprófíllinn allt allt annar.  Við erum að tala um Warrior, Chinook, Amarillo, Mosaic, Cascade, Nelson og svo haug, HAUG af Azacca!   Bjórinn er núna kominn í 8.9% og er ég bara nokkuð sáttur.  Hann bragðast líka mjög vel á þessu stigi og ég er ekkert búinn að þurrhumla!  Fyrsti skammtur af humlum fóru í gertanginn í dag, nýr skammtur eftir 4-5 daga og svo fer að styttast í krana 🙂  Hlakka bara helvíti mikið til.

Digri Saison w. Brett

Sumir komu færandi hendi á nano innlitið um daginn. Digri brugg (Gunnar Óli, Andri Þór og Ingi Már) komu td með poka af heimalöguðu stöffi. Ma var það þessi hér tunnuþroskaður saison m. brettanomyces geri.  Þetta er einfaldlega frábær saison en kom mér ekkert á óvart þar sem ég hef smakkað öl frá þeim áður!  Þessi er flottur i nefi ferskur og funky með ögn ávaxtakeim og svo viður. Í munni er hann ferskur og notalega þurr og brettaður með sætum nótum i restina og einhver ávöxtur ss grape. Viðarkeimurinn skín í gegn. Ég þurfti bókstaflega að rífast um glasið við frúnna sem ætlaði að drekka hann frá mér.

Ég þakka pent fyrir mig strákar…collab???

Punk Wanna B þurrhumlaður.

Hvað gerist ef þú tekur bjór, fjarlægir allt vatn, ger og bygg? Jú þú færð glas fullt af humlum.  Það er samt önnur saga…þetta glas af 5 mismunandi humlum er að fara út í Punk Wanna B sem kúrir í gerskápnum á nano.  Hann er aaaaðeins sterkari en hann átti að verða 5.9% en hann bragðast afskaplega vel.

Planið er að breyta aðeins til og þurrhumla í 3 skrefum.  Tvö síðustu á kút.  Hlakka til að smakka þetta kvikindi 🙂