Bjór 101

Það er ekki ætlunin að kafa djúpt í bjórfræðin hér heldur langar mig að renna yfir það helsta.  Í raun bara að svara þeim spurningum sem ég hef fengið mikið af í gegnum tíðina.   Restin kemur svo bara þegar maður fer að grúska.

Bjór verður til…
Við skulum skauta í gegnum bruggferlið til að hafa grunninn. Örstutt, annars verður þetta leiðinlegt.

FerliðVið getum notast við vegginn inni á nano (mynd).  Svona er þetta eins og gert er á nano amk, „brew in a bag“ aðferðin en hún er svo sem í grunninn eins og aðrar bruggaðferðir.

Maltað bygg er sett í vatn og hitað upp í ákv hita (66-70 gráður), ekki suðu því þá skemmist allt. Hitanum er haldið stöðugum(mikilvægt) í um klst eða meira.  Þetta kallast mesking.  Á þessu stigi er sykurinn úr korninnu leystur út í vatnið.  Korninu er svo hent og suðan hefst.  Suðan tekur um klst, hér getur maður bætt hinu og þessu út í ef maður vill td negul, greni ofl fyrir jólabjórinn, en humlarnir fara alltaf í suðuna.  Humlum er bætt í á mismunandi stigum suðunnar.  Þeir sem fara snemma gefa beiskju en lítið bragð á meðan þeir sem fara í lokin skila af sér bragði og lykt en ekki teljandi beiskju.  Eftir suðuna þarf að kæla vökvann sem við köllum virt á þessu stigi.  Kæla þarf virtina niður fyrir 20 gráður því gerið er viðkvæmt fyrir hita.   Á nano er þetta gert með kælispíral, tekur um 20-30 mín.  Loks er virtin sett á gertank eða fötur og gerinu bætt við og gerjun hefst.  Gerjun tekur mislangan tíma allt eftir hvaða stíl maður er með í höndunum, klassískt er þó í heimabruggi svona 10 dagar, amk ekki minna.  Vilji maður meiri humla þá getur maður bætt þeim út í gertankinn, þurrhumlun eða dry-hopping kallast það og getur hresst heldur betur upp á bjórinn.  Að lokum er bjórinn settur á flöskur/dósir eða kúta og hann kolsýrður.  Bjór hefur orðið til!

Hvað er bjór?

Kommon er það ekki augljóst?  Svona gylltur drykkur með froðu og með bjórbragði!  Jú jú það er ein leiðin að líta á þetta, förum samt aðeins dýpra.BjórskýringVið höfum rúllað í gegnum bruggferlið og því er betur hægt að átta sig á hvað bjór samanstendur af.  Við tölum um 4 megin þætti, vatn sem líklega gerir um 90% eða meira , bygg sem hefur verið forunnið eða maltað á ákv hátt og svo þurrkað eða ristað allt eftir hvernig lit og bragð við viljum fá í bjórinn, humlar sem gefa beiskjuna og mismunandi bragð eftir tegundum og loks gerið sem gerjar sykurinn úr bygginu og býr til kolsýru og áfengi.  Gerið gefur einnig af sér bragð í bjórinn allt eftir um hvaða ger ræðir og hvernig það er meðhöndlað.

Sem sagt, byggið gefur sætuna og fyllingu og hefur mikið að segja um lit bjórsins.  Humlar gefa beiskjuna til að vega á móti sætunni.  Eins koma alls konar dásamlegar bragðflækjur frá humlunum, ávaxtakeimur alls konar, blóm ofl.  Gerið gefur einnig bragð en það losar svo kallaða estera í bjórinn sem geta verið alls konar og loks vatnið sem ræður nokkru um mýkt og áferð bjórsins.  Þetta er grunnurinn, allur bjór inniheldur þessi 4 element en svo geta menn leikið sér endalaust með alls kyns plöntur og jurtir, bætt ávöxtum í og svo er auðvitað til aragrúi að korni sem hægt er að nota á móti bygginu, t.d. hveiti, rúgur, hafrar ofl.

Lager og öl?
Hver er munurinn á lager og öli?  Klassísk pæling sem á alveg rétt á sér.  Sumir tala ýmist um bjór eða öl og leggja þá sömu merkingu í þau orð. Á Norðurlöndum er t.d. Öl einfaldlega orðið yfir bjór og nota þeir þá enska orðið „ale“ til að greina á milli lagers og öls í þeirri merkingu.  Æ ég er að flækja þetta.  Við getum litið á þetta svona…

öLogLager

Bjór er  hægt að skipta í tvo meginn flokka, eða fjölskyldur ef maður vill.  Öl-fjölskylduna og lager fjölskylduna.  Meginn munurinn er bruggunaraðferðin og gerið.  Við getum talað um undirgerjaðan, kaldgerjaðan bjór eða lager sem gerjaður er við lágt hitastig, undir 15 gráður og svo heitgerjaðan, yfirborðsgerjaðan bjór eða öl sem gerjast við meiri hita.

Ölið er eldri en lagerinn eins og gefur að skilja, kælimöguleikar, til að kaldgerja bjórinn, lærðust okkur mönnunum ekki fyrr en í byrjun 19. aldar.  Ölið er þannig hinn upprunanlegi bjórstíll sem rekja má allt aftur til 6000 fyrir Krist.  Ölfjölskyldan inniheldur aragrúa af undirgerðum, Pale Ale, Stout, India Pale Ale, Hveitibjór, Trappist bjór, Lambic, Kriek og svona mætti lengi lengi…lengi telja.  Ölið er jafnan mun bragðmeira og flóknara en lagerinn og að sama skapi skemmtilegri bjórstíll. Maður getur grúskað endalaust í ölinu og fundið eitthvað nýtt og spennandi. Það er hér sem menn virkilega geta leikið sér við bjórgerðina.

Lagerinn er mun minna krefjandi bjórstíll enda fundinn upp til að ganga vel í almúgann, „crowd pleaser“.  Við lægra hitastig má segja að gerið fái ekki að njóta sín almennilega og það losar ekki hina bragðmiklu estera í bjórinn.  Lagerinn er þannig þurrari, bragðminni og einfaldari drykkur en ölið.  Síðan hinn ljósi lager kom fyrst fram á sjónarsviðið um miðja 19.öld (Pilsner Urquel) hafa vinsældir hans bara vaxið og vaxið og er drykkurinn nú vinsælasta áfengi veraldar. Vinsældir ölsins hafa um leið dalað því miður því sumir bjórstílar úr ölfjölskyldunni hafa horfið af sjónarsviðinu og koma kannski aldrei fram aftur.  Það er hins vegar vonarglæta á lofti, „ölbyltingin“ hefur verið að ryðja sér til rúms um víðaveröld síðustu ár og erum við t.d. farin að finna kröftuglega fyrir henni hér heima á fróni.  Fólk er aftur farið að sækja í ölið og bruggarar hafa tekið gleði sína á nýjan leik.  Þróunin er gríðarleg og í raun eru menn farnir að gera spennandi bjór sem engan veginn er hægt að flokka í ákv stíla eins og í denn.  Aðeins ímyndunaraflið virðist hamla för.

Segjum þetta gott í bili…ég mun svo bæta við ef ég er í stuði…t.d. hvernig maður ber sig að við að smakka mismunandi bjór ofl.