Koelschip & Mikkeller & Friends

048
Dennis kynnir hér belgískan lambic fyrir forvitnu pari á Koelschip

Ég hef síðustu misseri haft augun á Koelschip í Kaupmannahöfn sem er einn af nokkrum stöðum sem Mikkeller rekur í borginni.  Þessi fyrrum flöskubúð Mikkeller hefur nú verið breytt í pínulítinn bar sem sérhæfir sig í villibjór og lambic.  Lambic er belgískur bjórstíll og er eingöngu bruggaður í Belgíu.  Ef menn gera lambic utan Brussel í Belgíu þá er það ekki alvöru lambic heldur villibjór, sjálfgerjaður bjór eða súrbjór, allt eftir því hvað menn kjósa að kalla hann.  Ef þú kemur á Koelschip og hittir Dennis hinn ástríðufulla belgíska barþjón þá verður hann alls ekki ánægður ef þú spyrð um danskan eða amerískan lambic.  En þá vitið þið það, því það borgar sig nefnilega að komast í mjúkinn hjá Dennis því hann er heill hafsjór fróðleiks um belgískan bjór og bjórheiminn almennt.  Þegar Dennis kemst á flug þá er sko gaman og hver veit nema hann laumi á þig smakki on the house.  Það var t.d. Dennis sem fræddi mig um hvernig Jeppe (Evil Twin) bjargaði 3 Fonteinen, en það er önnur saga.

105
Hill Farmsted Arthur Dry Hopped á Mikkeller & Friends Kaupmannahöfn

Þetta er í raun einfalt, ef menn eru spenntir fyrir súrbjór bæði authentic lambic og öðrum frábærum túlkunum stílsins þá er það Koelschip og ekki skemmir fyrir ef menn hitta á Dennis.  Það er nefnilega aldrei of oft kveðið hve mikilvægt það er að hafa menn á barnum sem kunna sinn bjór í þaula og geta mælt með bjór sem þú vissir bara ekki að þig langaði í.  Staðurinn er lítill og „rykugur“ með nokkrum borðum og látlausum skreytingum og það er notaleg stemning.  4 kranar eru á barnum með virkilega flottum súrbjórum og flöskulistinn er mjög flottur, Cantillon, 3 Fonteinen, Oud Beersel ofl.  Verðlag er hins vegar aðeins í hærra laginu, þetta segi ég bara af því að ef maður fer á Himmeriget (Jeppe og co) þá getur maður fengið mikið af þessum sjaldgæfu perlum á mun betra verði.  Það er ekki að ástæðulausu að Dennis kallar Himmeriget þeirra mestu samkeppni.

En já skoðaðu Koelschip ef þú ert í nágrenninu og ert fyrir alvöru súrbjór.  Koelschip er svo samtengdur öðrum stað, Mikkeller & Friends Copenhagen  sem er staður nr tvö sem opnaði í Mikkeller veldinu.  Já þið þekkið öll Mikkeller & Friends Reykjavík ekki satt (ef ekki þá skamm skamm)?  Staðurinn er í eigu Mikkeller og To Øl , ef þið þekkið ekki To Øl þá er mikilvægt að þið lesið ykkur til um þá STRAX.  Ég hef í raun ekki mikið um staðinn að segja.  Hann er notalegur, staffið veit sitthvað um bjór, kranar eru 40 talsins með frábærum bjór frá Mikkeller, To Øl og öðrum virkilega flottum brugghúsum frá öllum heimsins hornum.  Staðnum er skipt upp í nokkra pínulitla sali eða herbergi og svo er lítill gangur inn í Koelschip.  Í stuttu máli er þetta bara flottur staður til að heimsækja ef maður er í nágrenninu eða er að eltast við eitthvað ákveðið á kranalistanum þeirra.  En….til að vera alveg hreinskilinn þá myndi ég ekki eltast sérstaklega við Mikkeller & Friends og Koelschip nema ég væri í nágrenninu, ég myndi frekar bara fara á  „Ground Zero“, Mikkeller Bar á Viktoriegade sem er meira sentralt og svo Himmeriget til að spara smá aur því þeir eru eiginlega mun betri í súrbjórnum hvað verð varðar, en þeir hafa reyndar ekki Dennis.

Warpigs í Kaupmannahöfn

006Warpigs er einn af þeim stöðum sem maður verður að skoða í Kaupmannahöfn, jafnvel þótt maður sé ekki mikill bjóráhugamaður.  Warpigs er í eigu Three Floyds og Mikkeller sem bæði eru stór nöfn í bjórheiminum.  Three Floyds er lítið handverks brugghús í Munster Indiana í Bandaríkjunum.  Þeir hafa verið að síðan þeir opnuðu árið 1996 og eru í dag með þekktari bjórgerðum í heimi.  Bjór þeirra er vægast sagt ögrandi og gríðarlega vinsæll og hefur unnið til margra verðlauna.  Þeir eiga nokkra hype bjóra ss Dark Lord sem slegist er um þegar hann kemur út ár hvert og svo þarf að nefna Zombie Dust sem margir þekkja sem besta Pale Ale í heimi ofl.  Það er erfitt að fá bjórinn þeirra því þeir eru ekki stórir og senda aðeins til nokkurra ríkja í Bandaríkjunum.  Í Evrópu er nánast ómögulegt að komast í Three Floyds bjór.  Warpigs bjórinn er bruggaður á staðnum en hann er samt sem áður handverk Three Floyds að hluta til og túlkun þeirra á bjór skín vel í gegn og því kjörið tækifæri að smakka bjór frá þessum köppum í Kaupmannahöfn en á Warpigs eru 22 kranar af geggjuðum bjór.

„Hægeldað ferskt kjöt og heimsins besti bjór með í miðju kjötþorpi borgarinnar, getur það klikkað? Það held ég ekki!“

Það þarf ekki að selja þetta frekar, sjáðu þetta fyrir þér, Warpigs er staðsettur í „kjötþorpinu“ eða kødbyen í Kaupmannahöfn, já þú ert að lesa rétt, kjötþorpinu.  Við erum að tala um lítið hverfi eða stórt torg ekki svo íkja langt frá Hovedbanegården (lestastöðinni) sem samanstendur af helling af kjötbúðum, kjötvinnsluhúsum og veitingahúsum sem sérhæfa sig í kjöti af öllum toga, Tomma Borgari er meira að segja á staðnum ef maður er í stuði.  Mitt í þessu öllu saman er svo Warpigs og það er sko ekki tilviljun því þeir státa af geggjuðum reykofnum þar sem þeir hægelda bæði nauta- og svínakjöt af ýmsum toga í fleiri fleiri klukkutíma.  Kjötið er alltaf ferskt og svo fær það að malla í allt að 14 tíma áður en það er framreitt.  Það skemmtilega við staðinn er að ef þú ert seinn á ferð geturðu vel lent í því að kjötið sé búið því þeir byrja alltaf daginn með fersku kjöti sem svo bara klárast þegar það klárast sama dag.  Ég prófaði að heimsækja staðinn bæði að degi til og svo kl 18:00 á fimmtudegi.  Um daginn var nánast enginn á staðnum en um kvöldið var allt pakkað, ég fékk þó pláss til að borða en mögulega þarf maður að bíða eitthvað ef maður er þarna á háanatíma, já og kjötið var ekki búið.

021Það er ágætt að vita að Warpigs er ekki „fine dining“, hér er öll áhersla lögð á gott hráefni bæði í mat og drykk. Þetta er paradís fyrir rándýrið í okkur, svo mikið er víst. Staðurinn er mjög hrár, þú mætir nærð þér í álbakka og ferð að kjötborðinu og pantar þann bita sem þér langar í, það eru nokkrir mismunandi í boði, svo er eitthvað meðlæti og sallat einnig með.  Þetta færðu svo á álbakkann þinn beint, engir diskar eða handþurkur, ekkert rugl.  Servétturnar eru á stórum stórum klósettrúllum inní sal.  Loks ferðu að barnum og pantar eitthvað geggjað með að drekka.   Síðan finnur maður sér sæti á trébekkjum í rúmgóðum matsalnum eða ef sólin skín úti á kjöttorginu sjálfu og fylgist með fólki rífa í sig kjöt af öllum stærðum og gerðum á torginu því á sumrin eru oft einhverjir kjötbásar á miðju torginu og heilmikið stuð.  Það eru svo nokkrar mismunandi sósur á borðunum sem maður getur leikið sér með.  Sem sagt ekkert „dress code“, bara að mæta og njóta og muna að kjötið klárast mögulega þegar líður á kvöldið.  Það er rétt að taka það fram af gefnu tilefni að ef þig langar að æfa skóladönskuna og láta ljós þitt skína þá er það ekki sniðugt á Warpigs því staffið er mjög fjölþjóðlegt og fæstir frá Danmörku en þú gætir lent á íslensku stúlkunum tveim, reyndu að spotta þær.  Hér er annars enskan tungumálið sem gildir og já, ekki endilega búast við því að geta talað saman undir fjögur rómantísk augu því á kvöldin ómar allt hér af dauðarokki af bestu gerð enda eru þeir Three Floyds þekktir fyrir mikla dýrkun dauðarokks.

Ég má svo til með að benda á minn uppáhalds bjór sem oft er þarna á krana, Real Estate Mongol sem er 5 eða 6% pale ale með Citra humlum ofl eða það held ég amk, það er svo sem ekki auðvelt að fá upplýst hvaða hráefni eru í Warpigs bjórnum.  Ég held að þetta sé annað nafn á Zombie Dust sem nefndur var hér að ofan, en hver veit, menn eru ekki á eitt sáttir um þetta mál?  Þegar hann er ferskur er hann með því betra sem maður lætur ofan í sig.  Annar sigurvegari er svo Big Drunk Baby sem er stórkostlegur DIPA.

Real time kranalisti sést hér

This slideshow requires JavaScript.

Spontan Kaupmannahöfn

20161116_201850-1Þeir Tore og Tobias hjá To Øl létu loksins verða að því að opna sinn eigin stað í Kaupmannahöfn fyrr á þessu ári, lítið To Øl veldi væri reyndar betri lýsing.  Þetta veldi kalla þeir Brus en þar er bæði bar, brugghús, flöskubúð og svo veitingastaðurinn Spontan.  Á Spontan snýst allt um ferskt hráefni, matar og bjór/vínpöryn og hér gengur maður ekki að neinu vísu nema kanski gæðunum því bæði bjórlistinn og matseðillinn er síbreytilegur.  Það er Michelin kokkurinn Christian Gadient sem ræður ríkjum á Spontan en hann er jafnframt yngsti Michelin stjörnukokkur Dana eins og þeir kalla hann þótt hann sé í raun frá Austurríki en búsettur í Danmörku en það er önnur og líklega leiðinleg saga.  Christian ákveður „spontant“ hvað hann vill hafa á matseðlinum hverju sinni og því veit maður í raun ekkert hvað maður gengur að þegar maður pantar borð á Spontan, matseðillinn breytist reyndar ekki daglega en samt nokkuð ört.  Þetta gerir staðinn mun skemmtilegri því maður getur þá komið aftur og aftur og alltaf prófað eitthvað nýtt.

20161116_203136Matseðillinn er einfaldur, maður velur sér fjögurra, fimm eða sex rétta máltíð og svo bjór með, 3,4,5, eða 6 allt eftir því hvað maður þolir.  Þjónustan er persónuleg og vinaleg og allir vita hvað þeir eru með í höndunum, bæði hvað bjór og mat varðar því þjónarnir eru allir einnig starfsfólk í eldhúsinu og fara höndum um réttina í framleiðslu þeirra.  Ég var svo heppinn að sú sem þjónaði mér til borðs, Trine, er hægri hönd Christians og sjálfur kokkur á staðnum og jafnframt sú sem velur bjórinn með réttunum ásamt Christian. Christian kom svo sjálfur með einn réttinn og þá gafst tækifæri á að spjalla örstutt við hann og auðvitað hrósa matseldinni. Það vakti athygli mína hve ungur hann er og algjörlega laus við sjálfsdýrkun og mont.  Christian er frekar hlédrægur og rólegur persónuleiki sem gaman er að tala við.  Það er klárt að hann lítur á fólk í kringum sig sem jafningja og hann tekur öllu hrósi ekki beint til sín heldur hópsins í eldhúsinu sem heild.  Þessi strákur á sko eftir að verða eitthvað stórt og mikið.
Maturinn var stórkostlegur og bjórpörunin „spot on“ eins og sagt er ég myndi amk ekki breyta neinu. Í byrjun var það Pilsner með hveitimalti bruggaður á staðnum, svo Lindermans Blossom Gueuze með Hyldeblomst, loks Mikkeller Nelson Sauvin á Chardonnay tunnum sem kom ljómandi vel út með andabringunni og plómusósunni.  Það er svo alltaf gaman að sjá þegar fólk tvinnar bjór og mat saman, t.d. er brauðið með aðalréttinum bakað með imperial stout sem bruggaður er á staðnum og ég get sagt ykkur að brauðið var alveg magnað og gæti nánast staðið sem sér réttur. Menn vita ekki áfengisprósentu bjórsins sem er einn sá fyrsti sem kom úr brugggræjunum á Brus og því20161116_215026 má ekki selja hann úr húsi, þess í stað er hann notaður í sósur, bakstur og kokteila á staðnum.  Frábær lausn, maður hellir jú ekki góðum bjór. Ég gerðist djarfur og blikkaði Trine og spurði hvort hún gæti gefið mér að smakka þennan dularfulla bjór með brauðinu á meðan ég beið eftir eftirréttinum.  Hún gerði það með glöðu geði og ákv að skrá hjá sér þessa pörun sem góða hugmynd. Í lokin var borinn fram sætur eftirréttur með vöflu, ís og sætum sósum og ávöxtum.  Ég bjóst við Imperial Stout með þessu sem er  dálítið klassísk pörun með sætum eftirrétti en mi langaði eiginlega í flott Barley Wine og viti menn Trine kom með glæsilega flösku af Rommtunnu þroskuðum Imperial Red Ale fra To Øl, RedRum eða Murder afturábak sem var stórkostlegur með eftirréttnum.

Það skal tekið fram að það er reyndar hægt að fá vín-matarpörun ef maður vill heldur, en við munum ekki fjalla um það hér því ég hvet fólk frekar að fara í bjór-matarpörun en þar eru mun fleiri og skemmtilegri möguleikar í boði.

„Michelin stjarna á næstu 6-12 mánuðum að mínu mati“

Það er óhætt að mæla með heilu kvöldi hér á Brus og Spontan, hér er fólk sem veit nákvæmelga hvað það er að gera og þjónustan er frábær.  Spontan er ekki Michelin staður enn sem komið er en ég hef sterkan grun um að það muni breytast á næstu mánuðum eða ári.  Christian er alla vega að gera hér góða hluti og hefur fengið þessa stjörnu áður.  Ég verð að bæta við, þegar ég heimsótti Luksus (Evil Twin) í Brooklyn New York fyrir nokkrum árum síðan þá spáði ég líka Michelin stjörnu og viti menn, stjarnan kom hálfu ári síðar og varð Luksus þá fyrsti bjórbar í heimi til að fá þessa stjörnu.  Boðskapurinn er sem sagt, ef ég er sannspár þá er um að gera að drífa sig á Spontan áður en hann fær stjörnuna því þá hækka jú prísarnir!

B R U S í Kaupmannahöfn

20161116_191645_001Þar kom að því, snillingarnir þeir Tore og Tobias á bak við To Øl, opnuðu loksins þeirra eigin stað og þeir gerðu það með látum.  Þeir létu sér ekki næga að opna lítinn bar eða flöskubúð, nei þeir gerðu það allt, bar, búð, brugghús og veitingastað.  Þetta er í raun magnað því líkt og Mikkeller þá eru eða voru To Øl flökkubruggarar sem áttu ekkert brugghús heldur brugguðu bjór sinn í brugghúsum um víða veröld.  Þeir gera þetta vissulega enn nema að nú eru þeir líka með sitt eigið brugghús, BRUS.   Það er dálítið skemmtilegt að sitja hér á barnum þeirra og hugsa nokkur ár til baka, ég held það hafi verið 2014 þegar við Tobias sátum á Kexinu og ræddum málin en hann hafði verið þar í tengslum við árlega bjórhátíð á Kex.   Ég man eftir að hafa furðað mig á því við hann af hverju To Øl með sitt „repp“ og flotta vöru opnuðu ekki sinn eigin bar (þeir eiga reyndar bari með Mikkeller , eins og t.d. Mikkeller & Friends Reykjavík).  Ég man bara eftir glottinu sem færðist yfir andlit Tobiasar, „man ved ju ikke hvad sker“ sagði hann bara.  Ég vissi svo sem hvað hann átti við, þeir væru að skoða eitthvað en ég bjóst samt ekki við þessu útspili.

20161116_192226

Barinn er stór og rúmgóður og mjög stílhreinn.  Langur viðarbar og trékollar og svo borð við veggina.  Öðru meginn gengur maður inn í glæsilega flöskubúð og hinu meginn endar barinn í veitingastaðnum Spontan sem ég mun fjalla um sér.  Svo má sjá gerjunartanka og eikartunnur og ýmis konar brugggræjur meðfram veggjum inn að miðju staðarins.  Staðurinn pakkar 32 krönum en 8 af þeim eru fráteknir fyrir kokteila, jább þeir dæla mismunandi kokteilum af krana sem koma nánast tilbúnir út.  Restin er hins vegar bjór og þá erum við ekki að tala um neitt slor.  Flest er frá þeim sjálfum, BRUS og svo To Øl en einnig gestaöl frá uppáhalds framleiðendum þeirra félaga og eins og flest í þessum bjórheimi þá er kranalistinn síbreytilegur.  Svo er hægt að fá alls konar snarl á barnum, ss hamborgara en ég prófaði ekkert að þessu sinni þar sem ég átti borð pantað á Spontan.
Þjónustan er vinaleg, barþjónar tala ýmsum tungum, sænsku, ensku ofl og þeir virðast sæmilega vel að sér í bjórmálum.  Ef maður er svo búinn með alla bjóra á kranalistanum eða líst ekki á listann af einhverri furðulegri ástæðu er hægt að skella sér í flöskubúðina sem er samtengd barnum og skoða þar úrvalið því hér má drekka bjórinn á staðnum eða borga meira fyrir hann og taka með heim.  Búðin lokar reyndar kl 22:00 en það má þó áfram sitja þar í rólegheitunum með bjór frá barnum frammi.  Úrvalið er mjög gott en megin áhersla er þó lögð á To Øl bjór og Mikkeller.  Ég fann þó slatta frá Omnipollo og svo eru belgískir bjórar áberandi einnig.

20161116_192144Það er óhætt að mæla með góðri kvöldstund á BRUS, hér fær maður í raun allt sem þarf.  Notalega stund á barnum, barsnarl eða ef maður vill „fine dining“ þá er Spontan innan seilingar (panta þarf borð samt) og svo getur maður verslað flöskur til að taka með sér heim. Borðleggjandi.

Øl og Brød by Mikkeller

179Øl og Brød er tiltölulega nýr staður sem tilheyrir Mikkeller veldinu.  Staðurinn er ca 10-15 metrum frá allra fyrsta stað Mikkeller, „ground zero“ eða Mikkeller bar Viktoriegade.  Hér er þjóðarréttur Dana í sviðsljósinu, smurbrauð eða Smørrebrød eins og Danir kalla það.  Danir drekka venjulega snaps skot með smurbrauði sínu og það er vissulega hægt að fá snaps á Øl og Brød.  Hins vegar er Mikkeller fyrst og fremst bjórframleiðandi og því höfum við 10 krana að moða úr á staðnum.  Á þessum 10 krönum eru 5 fastir bjórar og svo 5 sérvaldir breytilegir bjórar sem passa með smurbrauðinu hverju sinni.  Já bæði bjór og smurbrauð breystast nefnilega reglulega.  Megin þema staðarins er pörun matar við bjór og snaps.

Staðurinn er pínu lítill með aðeins um 7-8 borðum.  Boðið er uppá smurbrauð frá kl 12 til 16 eða 17 og svo er lokað í klukkutíma.  Kl 18 opnar staðurinn svo aftur með kvöldmatseðli sem ekki inniheldur smurbrauð. Áfengi er svo serverað til 23:00. Ekki virðist þurfa að panta borð á þessum stað en hafa ber í huga að hann er mjög lítill.

186Þegar ég var þarna á miðvikudegi voru tvö borð upptekin.  Fredrik þjónn tók vel á móti mér.  Glaðbeittur og vinalegur.  Ég valdi mér tvö smurbrauð sem er passlegt fyrir fullvaxta svangan karlmann.  Ég vildi sjá hvaða bjór þeir mæltu með fyrir klassíska kæfu og beikon smurbrauðið og svo fékk ég mér Andabringubrauð einnig.  Fredrik virtist vera með þetta á hreinu, hann gat mælt með mismunandi öli og spjallað um eiginleika öls og rétts.  Ég lét hann sjá um valið en hann var mjög viljugur að láta mig fá smakkprufur af hinu og þessu ölinu til að prófa og sjá hvernig það breytti réttnum.  Það þurfti ekki mikið til áður en við vorum báður komnir á flug að ræða bjór og mat.  Mjög gaman.  Maturinn var frábær, bjórinn sem mælt var með var mjög passandi þó ég hefði sjálfur valið annað með Andabringunni, en það er önnur saga.  Ég kom út pakksaddur og glaður og borgaði 5300 kr fyrir tvö smurbrauð og 3 bjóra sem mér finnst mjög sanngjarnt.

Ég mæli eindregið með þessum stað ef áhugi er fyrir vel lukkaðri bjór og matarpörun. Svo er vel gert smurbrauð bara svo ljómandi gott. Frábært!

Himmeriget Kaupmannahöfn

148

Fyrir þá sem af einhverjum ástæðum eru þreyttir á Mikkeller veldinu og öllum þeim stöðum sem þeir hafa dreift um  alla borg þá er hægt að skoða Himmeriget.  Himmeriget, sem myndi skrifast sem Himnaríkið á íslensku er lítill bar á Åbulevarden í Nørrebro í eigu Jeppe Jarnit Bjergsø (Evil Twin Brewing) og tveggja félaga hans.  Annar þeirra er einnig meðeigandi Jeppe í Drikkeriget sem er ansi umfangsmikill bjór inn- og útflytjandi.  Það er dálítill misskilningur að Himmeriget sé Evil Twin bar en óneytanlega eru miklar líkur á að finna bjór frá Evil Twin á krana en það er alls ekki gefið.   Það sem gerir Himmeriget dálítið sérstakt er nánast fáránlega flottur flöskulisti með helling af sjaldgæfum perlum inn á milli.  T.d. má nefna að Cantillon listinn er sá lengsti sem ég hef séð fyrir utan Cantillion í Brussel.  Þar má nefna Lou Pepe og Fou’ Foune sem óhætt er að segja að séu gríðarlega hypaðir bjórar og mjög erfitt að komast yfir flösku.  3 Fonteinen, annað frábært belgískt „lambic“ brugghús fær mikla athygli á listanum einnig.  Það góða við þetta allt er svo að flöskurnar eru á mjög flottu verði, t.d. er stór flaska (75cl) af Lou Pepe á 230 danskar eða litlar 3750kr þegar þetta er ritað.  Það er í raun bara rugl verð fyrir svona bjór á bar í Danmörku.

123

Talandi um 3 Fonteinen þá sagði Dennis mér áhugaverða sögu um Jeppe og 3 Fonteinin.  Dennis er belgískur barþjónn á Koelscip (nánar um það síðar) sem kann sitt fag og veit sitt hvað um bjórsenuna.  Skv Dennis er það Jeppe, og áhuga hans á súrbjór, að þakka að 3 Fonteinen er starfrækt í dag.  Sagan segir að fyrir nokkrum árum hafi einhver bilun átt sér stað í hittastilli í geymslum 3 Fonteinen sem olli því að hitastigið hækkaði og stór hluti framleiðslunnar sem kúrði í flöskum til þroskunnar sprakk.  3 Fonteinen horfði fram á gjaldþrot.  Jeppe ásamt félögum í Drikkeriget vildu reyna að hjálpa þessu flotta belgíska brugghúsi ,enda gera þeir með betri súrbjórum þessarar veraldar, ss Frambosen bjórinn þeirra.  Á þessum tíma, 2011 var CBS, ein virtasta bjórráðstefna veraldar í dag, ekki bara rekin af Mikkeller eins og hún er í dag.  Nei Jeppe ofl komu einnig að henni og þeir báðu 3 Fonteinen að brugga sinn rómaða Framboise hindberjasúrbjór fyrir ráðstefnuna.   Í fyrstu voru þeir dálítið tregir til en þegar Jeppe er búinn að ákveða eitthvað þá venjulega verður það að veruleika.  Á endanum brugguðu þeir bjórinn fyrir samkomuna og bjórinn sló að sjálfsögðu algjörlega í gegn.  3 Fonteinen var aftur komið á kortið og gátu haldið áfram að brugga frábæran villibjór.  Já, þetta er haft eftir Dennis á Koelscip.

169Himmeriget er með 10 krana og um 270 flöskur og svo svakalega flott úrval af Whiskey ef menn eru í slíku.  Smá snarl er hægt að fá, litlar pizzur 4 tegundir, pylsur, ólifur og hnetur.  Þetta er því ekki staðurinn sem þú ferð á ef þú ert að fara út að borða eða villt skoða langan lista af kranabjór, hingað ferðu til að fá stórbrotið úrval af flöskubjór á frábæru verði.  Hingað ferðu líka ef þú hefur lesið um Cantillon Blåbær sem er bláberja gueuze bruggaður fyrir Jeppe og Ølbutiken eingöngu.   Þetta er bjór sem kemur núna einu sinni á ári og myndast þá langar raðir fyrir utan Ølbutiken.  Í dag er hins vegar stór hluti framleiðslunnar sem fer til Himmeriget.   Ég var svo lánsamur að fá eina flösku í heimsókn minni á barinn, 2016 útgáfuna.  Flottur bjór, góður súrbjór en engin himnasæla.