
Mikkeller er eitt þekktasta merkið í bjórheiminum í dag amk í „craft“ bjór veröldinni. Allir sem spá eitthvað í eða brugga bjór vita um Mikkeller, dönsku bjórgerðina sem byrjaði sem heimabrugg í eldhúsi og er nú orðið stórveldi. Mikkeller eða Mikkel Borg Bjergsø sem er stofnandi og heilinn á bak við bjórgerðina er það sem menn kalla flökku- eða farandsbruggari því hann bruggar ekki bjór sinn í sínu eigin brugghúsi heldur fær hann vinveitt brugghús um heim allan til að brugga bjórinn fyrir sig, oftast þó De Proef í Belgíu Þetta hefur reyndar breyst með kaupum Mikkellers á gamla Alesmith brugghúsinu í San Diego á síðasta ári og verður spennandi að sjá hvernig það þróast.
En fyrir þann tíma var Mikkeller farandsbjórgerð og erfitt að nálgast bjórinn frá þeim nema í sérverslunum á stöku stað í Danmörku. Reyndar komst Mikkeller furðu fljótt inn á Bandaríkjamarkað og varð fljótt vinsælt vörumerki þar. Mikkeller var formlega stofnað árið 2006, sama ár slóu þeir í gegn með bjórinn sinn Beer Geek Breakfast sem valinn var besti bjór í heimi á Ratebeer.com (stærsta bjórsamfélag veraldar á netinu) og í kjölfarið jukust vinsældir Mikkellers á heimsvísu. Eftirspurnin eftir bjór þeirra varð gríðarleg en erfitt var að komast í kræsingarnar. Það var því himnasending fyrir bjóráhugafólk um heim allan þegar Mikkeller opnaði sinn fyrsta bar árið 2010, Mikkeller Bar á Viktoriegade í Kaupmannahöfn.
Loksins var hægt að fá þennan frábæra bjór bæði á flöskum og krana á einum stað. Það má líka segja að hér væri kominn vísirinn af heimsveldi Mikkellers. Vinsældir barsins og Mikkeller jókst gríðarlega á árunum á eftir og fólk flykktist á staðinn frá öllum heimsins hornum. Þessar góðu viðtökur hvöttu Mikkel frekar í að opna fleiri staði í Kaupmannahöfn og nokkrum árum síðar opnaði bar nr tvö Mikkeller & Friends á Nørrebro og svo allir hinir koll af kolli.
Mikkeller bar er lítill bar þar sem lítið er lagt upp úr íburðum, bjórinn er það sem skiptir hér máli ekki flottar innréttingar. Barinn samanstendur af tvískiptu rými og litlum bar í miðjunni með 20 krönum. Hér getur verið erfitt að ná sætum eða borðum því það þarf lítið til að staðurinn verði troðfullur. Þegar mikið er að gera er nánast ómögulegt að fá ráð og ábendingar frá barþjónunum sem er frekar súrt því stór hluti af upplifuninni á svona bar er að fá að vita aðeins um það sem maður er að drekka. Það er því ágætt að reyna að stíla inn á að mæta ekki á háannatímum ef maður vill njóta þess besta sem staðurinn hefur að bjóða.
Já það er gaman að koma á þennan stað og sjá hvar þetta byrjaði allt saman. Barinn er enn í sama standi og þegar ég heimsótti hann fyrst árið 2011 ári eftir opnun því lítið hefur verið lappað upp á hann á þessum 6 árum sem liðin eru. Hér finnur maður sko söguna í loftinu…
Bakvísun: Koelschip & Mikkeller & Friends – nano
Bakvísun: Øl og Brød by Mikkeller – nano
Bakvísun: Øl og Brød by Mikkeller | Bjór & Matur
Bakvísun: Skýjaða NEPA æðið á Íslandi! | Bjór & Matur
Bakvísun: Stærsta bjórsamkoma Íslandssögunnar, Bjórhátíð á Kex dagana 22.-24.2.2018 | Bjór & Matur