nano club, gamalt og nýtt

20160811_201815Við kvöddum sumarið um daginn í nano club með ljúffengu öli.  Sumt var nýtt en annað áður smakkað.  Fear of Ghosts frá Stillwater var bjór sem ég dröslaði með mér frá New York í byrjun sumars.  Reyktur Farmhousee Wheat Ale og alveg ooofsalega góður.  Reykurinn var hins vegar alveg hulinn en bjórinn var mildur, létt súr og notalegur.  Allir sáttir.  Svo er Mango Magnifico frá snillingunum í Founders að gera stórkostlega hluti.  Þvílík snilld að setja habanero chilly í ferskan mangobjór.  Léttur bruninn frá habanero kemur svona líka afskaplega vel út í eftirbragði og skapar fullkomið jafnvægi.  10% stórhættulegur karl sem þarf reyndar að kaupa núna ef menn ætla að smakka.  Bjórinn tilheyrir nefnilega svokallaðri back stage series sem inniheldur bjór sem er aðeins bruggaður í eitt skipti í takmörkuðu upplagi og svo bara ekki meir nema eitthvað sérstakt komi til.  Bjórinn í back stage seríunni er oft á tíðum afar fríkaður og út úr öllum boxum.  Mæli með að fólk sérpanti þetta frá Járn og Gler og prófi.  Blushing Monk er einnig úr þessari seríu og er stórskemmtilegur sumarbjór en heldur til væminn fyrir minn smekk.  Stelpurnar og Darri voru reyndar mjög ánægð með hann.  Góður bjór en ég hef kannski fengið of mikið af honum þegar ég var með hann á dælu á Skúla Craft Bar á sínum tíma?

Mikkeller Beer Geek Vanilla Shake þarf svo varla að kynna eða hvað?  Geggjaður imp. stout með vanillu.  Í sætari kantinum vissulega en ekki of væminn fyrir minn smekk.