
Ég hef síðustu misseri haft augun á Koelschip í Kaupmannahöfn sem er einn af nokkrum stöðum sem Mikkeller rekur í borginni. Þessi fyrrum flöskubúð Mikkeller hefur nú verið breytt í pínulítinn bar sem sérhæfir sig í villibjór og lambic. Lambic er belgískur bjórstíll og er eingöngu bruggaður í Belgíu. Ef menn gera lambic utan Brussel í Belgíu þá er það ekki alvöru lambic heldur villibjór, sjálfgerjaður bjór eða súrbjór, allt eftir því hvað menn kjósa að kalla hann. Ef þú kemur á Koelschip og hittir Dennis hinn ástríðufulla belgíska barþjón þá verður hann alls ekki ánægður ef þú spyrð um danskan eða amerískan lambic. En þá vitið þið það, því það borgar sig nefnilega að komast í mjúkinn hjá Dennis því hann er heill hafsjór fróðleiks um belgískan bjór og bjórheiminn almennt. Þegar Dennis kemst á flug þá er sko gaman og hver veit nema hann laumi á þig smakki on the house. Það var t.d. Dennis sem fræddi mig um hvernig Jeppe (Evil Twin) bjargaði 3 Fonteinen, en það er önnur saga.

Þetta er í raun einfalt, ef menn eru spenntir fyrir súrbjór bæði authentic lambic og öðrum frábærum túlkunum stílsins þá er það Koelschip og ekki skemmir fyrir ef menn hitta á Dennis. Það er nefnilega aldrei of oft kveðið hve mikilvægt það er að hafa menn á barnum sem kunna sinn bjór í þaula og geta mælt með bjór sem þú vissir bara ekki að þig langaði í. Staðurinn er lítill og „rykugur“ með nokkrum borðum og látlausum skreytingum og það er notaleg stemning. 4 kranar eru á barnum með virkilega flottum súrbjórum og flöskulistinn er mjög flottur, Cantillon, 3 Fonteinen, Oud Beersel ofl. Verðlag er hins vegar aðeins í hærra laginu, þetta segi ég bara af því að ef maður fer á Himmeriget (Jeppe og co) þá getur maður fengið mikið af þessum sjaldgæfu perlum á mun betra verði. Það er ekki að ástæðulausu að Dennis kallar Himmeriget þeirra mestu samkeppni.
En já skoðaðu Koelschip ef þú ert í nágrenninu og ert fyrir alvöru súrbjór. Koelschip er svo samtengdur öðrum stað, Mikkeller & Friends Copenhagen sem er staður nr tvö sem opnaði í Mikkeller veldinu. Já þið þekkið öll Mikkeller & Friends Reykjavík ekki satt (ef ekki þá skamm skamm)? Staðurinn er í eigu Mikkeller og To Øl , ef þið þekkið ekki To Øl þá er mikilvægt að þið lesið ykkur til um þá STRAX. Ég hef í raun ekki mikið um staðinn að segja. Hann er notalegur, staffið veit sitthvað um bjór, kranar eru 40 talsins með frábærum bjór frá Mikkeller, To Øl og öðrum virkilega flottum brugghúsum frá öllum heimsins hornum. Staðnum er skipt upp í nokkra pínulitla sali eða herbergi og svo er lítill gangur inn í Koelschip. Í stuttu máli er þetta bara flottur staður til að heimsækja ef maður er í nágrenninu eða er að eltast við eitthvað ákveðið á kranalistanum þeirra. En….til að vera alveg hreinskilinn þá myndi ég ekki eltast sérstaklega við Mikkeller & Friends og Koelschip nema ég væri í nágrenninu, ég myndi frekar bara fara á „Ground Zero“, Mikkeller Bar á Viktoriegade sem er meira sentralt og svo Himmeriget til að spara smá aur því þeir eru eiginlega mun betri í súrbjórnum hvað verð varðar, en þeir hafa reyndar ekki Dennis.
Bakvísun: Mikkeller Bar, vísir að heimsveldi – nano