Hans frá Borg!

wp-1475699320142.jpgÞað má eiginlega segja að ég hafi beðið eftir þessum bjór síðan 2014 þegar Gréta kom fyrst frá Borg.  En þá endað ég umfjöllun mína um Grétu með eftirfarandi :

“…. Þetta er bara nokkuð flottur og skemmtilegur bjór.  Svo er spurning hvenær Hans kemur út?  Varður það oktoberbjórinn að ári eða bara næsti bjórinn frá Borg?“

Alla vega, Hans nr. 44 er nú kominn tveim árum síðar til að styðja við systur sína endurfæddu, Grétu , sem einn af tveim Oktoberfestbjórum frá Borg þetta árið.  Hans er þýskur reykbjór eða rauchbier sem líklega er einn af mest krefjandi bjórstílum þarna úti.  Það er alla vega óhætt að segja að fólk verður að vita fyrirfram útí hvað það er að fara.

Rauchbier


..eins og nafnið bendir til er reyktur bjór, þ.e.a.s bjór með reyk í bragði, hvað annað?  Þessi bjórstíll, reyktur bjór,  var hér áður fyrr eiginlega allsráðandi ef svo má segja því fram til byrjun 19. aldar áttu bruggarar lítinn möguleika á að þurrka maltið sitt nema yfir opnum eldi.  Tæknin til að stjórna þurrkuninni var einfaldlega ekki til staðar. Það var vissulega misjafnt hvaða eldsneyti menn notuðu, en hvort sem það var gras, viður, kol eða eitthvað annað þá enduðu menn alltaf með reykt malt að einhverju leiti.  Það var því al vanalegt að finna eitthvað reykbragð af bjór þess tíma.  Þegar menn fóru svo að geta stjórnað þurrkuninni betur t.d. með tilkomu steikingarvéla Wheelers upp úr 1817 fór reykbragðið að hverfa almennt úr bjór.  Reykurinn þótti þá vera óæskilegt aukabragð.  Það voru þó einhverjir sem héldu tryggð við gamlar brugghefðir,nefnilega bjórgerðirnar í og í kringum Bamberg í Bæjaralandi.  Þessar bjórgerðir notuðu áfram viðareld til að þurrka maltið sitt og þannig hefur þessi bjórstíll, rauchbier, varðveittst til dagsins í dag.  Bamberg  er í dag vagga reykbjórsins og þaðan kemur líklega sá þekktasti þeirra allra, Aecht  Schlenkerla Rauchbier.

Reykbjór er eins og fyrr segir dálítið krefjandi bjór í fyrstu en eins og með allt nýtt í bjórveröldinni þá þarf maður að smakka með opnum hug og alltaf meira en bara einn eða tvo sopa.  Reykbjór er nefnilega dálítið spes í fyrstu tilraun en „venst“ furðu fljótt.  Bjórstíll þessi er auk þess ofsalega skemmtilegur til matargerðar og matarpörunnar.  Þess má geta að við Íslendingar erum sko ekkert nýgræðingar í þessum stíl því Surt 30 frá Borg eru flestir farnir að þekkja, kolsvarti djöfullinn sem bruggaður er með taðreyktu malti og menn keppast við að ýmist hata eða elska.

Hans nr. 44

Í glasi er þetta undur fagur bjór, rauðbrúnn að lit með þétta notalega froðu.  Það stígur mildur reykur úr glasinu en með dulítlu sætu korni með.  Notalegt verð ég að segja.  Í munni erum við með mun minni reyk en ég bjóst við, hann er vel merkjanlegur það er klárt en langt frá því að vera yfirdrifinn.  Við erum hérna með fallega sviðsmynd þar sem bruggmeistarar Borg Brugghús fá að sýna okkur magnað verk þar sem reykur stígur dans við sætt malt og beiska humla allt saman í svo hárfínu jafnvægi.  Reykurinn hverfur eiginlega þegar líður á bjórinn í sætt kornið en beiskjan vegur fallega á móti.  Þannig erum við með dálítið af ristuðum nótum, mildan reyk, þægilega sætu og velkomna beiskju í bjór sem gefur flotta fyllingu og svo langt notalegt eftirbragð.
Þessi bjór er rakinn matarbjór hvort sem eldað er úr honum eða hann paraður með kræsingunum.  Ég sé fyrir mér stórkostlegan jólabjór sem mun ganga vel með flestu því sem við Íslendingar maulum yfir jólin.  Liturinn, svona rauðbrúnn með hvíta húfu gengur einnig fullkomlega upp.  Ég get sagt ykkur að þennan mun ég kaupa vel af og láta standa í myrkri fram að jólum.

Takk fyrir mig Borg, flottur reykbjór sem ég tel að sé langt frá því að vera of krefjandi fyrir almúgann.