Ég má til með að hrósa Járn og Gler fyrir þetta, Punk IPA í dósum! Já ég sagði í dós og já ég sagði Járn og Gler. Fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er kominn tími á að uppfæra upplýsingabankann en Járn og Gler flytur inn nánast allt eðal stöffið sem við erum að sjá á börunum ss Skúla, Microbar og Bjórgarðinum ofl. Mikkeller flytur sitt inn sjálfur en stundum taka þeir líka perlur frá Járn og Gler. Það eru þeir bræður Andri Þór Kjartansson og Ingi Már Kjartansson sem við getum þakkað að úrvalið hér á landi er svona flott. Klapp á bak fyrir það strákar!
Dósabjór er vel þekkt fyrirbæri, menn tengdu þetta hér í denn við „lagersull sem má drekka hvernig sem er“ (sem reyndar er ekki rétt). Fínan bjór átti að drekka í gleri því það er miklu betri umbúðir og varðveitir gæðin. Þetta er það sem margir halda/héldu, ég viðurkenni það sjálfur að þegar ég byrjaði á þessu öllu saman þá var glerið það eina sem mátti koma í minn ískáp. Svo hefur maður jú lært ýmislegt, m.a. það að dósin varðveitir bjórinn mun betur, fyrir það fyrsta kemst akkúrat ekkert ljós í bjórinn en ljós hefur skelfileg áhrif á bjór, þið sjáið t.d. að allur bjór er í grænum eða brúnum flöskum ekki satt? Og svo ég hafi það nú með hér þá eru brúnu flöskurnar betri hvað þetta varðar. Hitt er svo að kolsýra og það sem er kannski mikilvægara humalkarakterinn heldur sér betur í dósinni á meðan flöskurnar leka hægt og rólega.
Þetta eru handverksbrugghúsin löngu búin að átta sig á en hafa farið varlega í það að breyta yfir í dósirnar bæði af því að það er kostnaðarsamt að breyta og svo er almenningur hræddur við dósirnar og tengir þær við lélegan lágæðabjór. Bruggarar eru hins vegar farnir að berjast gegn þessu núna enda er þeim í mun að koma bjórnum sínum til fólks á sem bestan máta. Því fagna ég því að nú sé Punk IPA kominn í ÁTVR í dós og hvet ég fólk að velja heldur dósina. Muna bara að drekka ekki beint úr dósinni því þá er hætt við að menn finni ögn álbragð með. Ég vil svo taka fram að Founders All Day IPA hefur verið fáanlegur í dós um nokkurt skeið og hann er meira að segja ódýrari í dósinni. Sem sagt þú BORGAR MINNA FYRIR MEIRI GÆÐI!