Gísli Súröl frá Borg!

20160824_174028Það hefur lítið farið fyrir nýjasta sköpunarverki Borgar brugghúss, Gísla Súröl sem þeir félagar Stulli, Árni og Valli sendu frá sér á sumarmánuðum.  Gísli sem er nr 42 í röðinni er 4% súröl sem hentar vel til sumardrykkju.  Tengingin við nafnið ætti að vera augljós.  Súrbjór er dálítið krefjandi bjórstíll, þetta er ekki bjórinn sem þú prófar sem þín fyrstu skref úr öruggu umhverfi lagerbjórsins nema að þú sért með ríka ævintýraþrá og opinn huga.
Við Íslendingar höfum ekki haft mikil kynni af súrbjór í gegnum aldanna rás en við erum samt sem áður alls engir viðvaningar þegar kemur að súrum drykkjum.  Mysa hefur t.d. verið drukkin hér á landi sem svaladrykkur frá tímum Víkinga þótt yngri kynslóðir séu fyrir all nokkru hættar að leggja sér hana til munns.  Mysa inniheldur m.a. mjólkursýrugerla (Lactobacillus tegundir) sem gera hana svona súra og sérstaka, en í Gísla Súröl eru einmitt notaðar svipaðar bakteríur úr Lactobacillus fjölskyldunni ásamt villigersveppum af Brettanomyces ættum.  Lactobacillus gerir bjórinn súran og mysukenndan á meðan Brettanomyces gefur af sér bragð sem mjög erfitt er að lýsa.  Menn verða einfaldlega að smakka bjór sem er „brettaður“ eins og stundum er sagt til að átta sig á því bragði.  Stundum líkt við leður, háaloft eða fúkkalykt.  „Funky“ er einnig orð úr bjórheiminum sem notað er yfir þetta fyrirbæri.

Nú hugsa sumir, bjór sem er súr er skemmdur bjór. Að mörgu leiti er það rétt, bjór sem ekki á að vera súr, ss lager, pale ale ofl má alls ekki vera súr því þá er hann skemmdur, þ.e.a.s. það hefur komist sýking í hann.  Með sýkingu er þá átt við að villtar örverur úr umhverfinu hafa náð bólfestu í bjórnum og eru byrjaðar að sýra bjórinn.  Þegar svo er komið er um sýktan, skemmdan bjór að ræða.  Það er því í raun hægt að segja að súrbjór sé viljandi skemmdur rétt eins og á við um mygluosta t.d.

Ég mæli með að drekka Gísla fyrst ískaldan, sérstaklega ef menn eru að prófa súrbjór í fyrsta sinn.  Svo er alltaf skemmtilegra að bragða bjór aðeins heitari síðar því þá koma allar bragðflækjurnar betur fram.  Gísli er fallegur í glasi, mattur með gulum blæ, froðan hverfur samt alveg um leið. Í nefi má finna eins og sítrónukeim og mysu, ekki mikið „funk“.  Léttur í munni og auðvitað súr á tungu og tekur létt í kinnar.  Mjólkurgerillinn er áberandi og þannig minnir hann nokkuð á Mysuna en það fer lítið fyrir brett gerinu.  Ögn sætt eftirbragð og þægilega kolsýrður.  Mjög svalandi og skemmtilegur bjór sem vert er að smakka.  Muna svo að dæma aldrei nýjan bjór af fyrstu kynnum,alltaf að smakka aftur.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s