Þegar ég sá um Skúla Craft Bar hér áður þá lagði ég mikið upp úr því að komast yfir besta bjór sem völ var á til að bjóða landsmönnum á barnum. Sælla minninga tókst mér þannig að fá hingað til lands Arizona Wilderness brewing alla leið frá Arizona í Bandaríkjunum en AZ var á þeim tíma valið besta nýja brugghús veraldar (2013) á Ratebeer.com (sem er stærsta bjórsamfélag heims). Þetta var aldeilis frábært því til að smakka bjórinn þeirra hefði maður annars þurft að ferðast alla leið til Arizona á barinn þeirra því þeir settu á þeim tíma ekkert á flöskur eða dósir og maður lifandi hvað bjórinn var góður. Eftir þetta fór ég á flug, ég hafði m.a. upp á 10. besta nýja bruggúsi veraldar 2014 skv Ratebeer, norsku snillingana í 7 Fjell sem tóku eftirminnilegt tap takeover á Skúla og á sama lista var ameríska brugghúsið The Other Half brewing sem var í 7. Sæti. Þeir hættu reyndar við komuna á síðustu stundu sökum anna því miður.
Á þessum merka lista var svo auðvitað einnig besta nýja brugghús veraldar 2014, Edge Brewing í Barcelona. Ég spjallaði mikið við þá via email á síðasta ári í þeirri von að fá þá á klakann en þeir eru bara svo vinsælir og drekk hlaðnir verkefnum að þeir höfðu ekki tök á því. Það var því mjög skemmtilegt þegar við fjölskyldan ákváðum að heimsækja Barcelona núna í sumar (2016). Ég setti mig aftur í samband við „allt í öllu“ manninn þeirra Robin og við mæltum okkur mót.
Það var líklega heitasti dagurinn okkar þarna úti, 32 stig og mikil molla. Ég var eiginlega ekki að nenna að standa í því að dröslast þvert yfir borgina í neðanjarðarlest þetta kvöld. Hitinn í neðanjarðarlestakerfinu er enn meiri en úti í sólinni. Ég lét mig þó hafa það þrátt fyrir mikla vanlíðan. Ég fann fyrir rest brugghúsið en það lætur ekki mikið yfir sér, ein lítil hurð með logoinu þeirra sem var reyndar læst. Ég hélt að þeir væru með bar eða opið taproom. En alla vega ég fann svo einhverjar bakdyr og bankaði og var hleypt inn. Þar fann ég Robin sem er ósköp vinalegur enskur bjóráhugamaður sem búið hefur í Barcelona síðustu 12 árin. Áður en hann var ráðinn til starfa hjá Edge Brewing sá hann um bjór túra um borgina og er því afar góður félagsskapur fyrir bjórnördinn. Robin er einn af þessum rólegu „chilluðu“ gaurum sem hafa þessa þægilegu nærveru. „Þetta reddast yfirbragðið“ sem ég sjálfur vildi óska að ég hefði snefil af. Í dag sér Robin um allt og ekkert hjá Edge og er í raun maðurinn til að tala við vilji maður dansa með Edge. Ég var þarna svo sem í presónulegum erindagjörðum en ég tók samt með mér sýnishorn af því besta sem gerist í íslenskri bjórgerð, Borg brugghús auðvitað. Ég tók með mér Leif, Úlf, Surt 30 og Garúnu til að kynna þessum gaurum fyrir íslenskri bjórmenningu. Ég átti ekkert Nano brugg á flöskum sko.
Edge Brewing er í raun amerískt brugghús á spænskri jörð, stofnað árið 2013 af tveim amerískum heimabruggurum Alan Sheppard og Scott Vanover. Allur tækjabúnaður er innfluttur frá Ameríku og áherslan er lögð á amerískan bjór eins og þið hafið kannski getið ykkur til um. Sean McLin er svo þaulreyndur amerískur bruggari sem síðar var ráðinn til Edge brewing til að koma þeim á kortið. Sean er virkilega skemmtilegur náungi með mikið sjálfstraust og hæfileika og hann hefur mjög gaman að því að segja frá því sem á daga hans hefur drifið. Ég er að meina þetta á jákvæðan hátt, virkilega gaman að hlusta á hann og hann er með skoðanir á öllu og virðist vera mikill spéfugl. Þetta er gaurinn sem þú ferð með á jammið og það verður ekki leiðinleg stund. Sean er mjög fixeraður á hreinleika og ferskleika , ferskir humlar, ger og hráefni eru númer eitt, tvö og þrjú hjá Edge Brewing en það er kannski nákvæmlega það sem gerir þetta brugghús svona farsælt?
Ég byrjaði á að smakka nokkra bjóra frá þeim af krana en þeir eru með smakksal (tasting room) í miðju brugghúsinu. Þetta er ekki tasting room sem þú getur bara gengið inn í af götunni heldur þarf að panta pláss fyrirfram. Þeir eru með 10 dælur og svo auðvitað allt sem þeir framleiða á gleri en þeir flytja mest af sínum bjór úr landi, t.d mikið til Danmerkur. Robin hafði miklar áhyggjur af krönunum og hann var stöðugt að úða á þá sótthreynsiefni og tæma línurnar á meðan við spjölluðum því ávaxtaflugurnar fara strax í bjórinn sagði hann og bjórinn súrnar fljótt í hitanum. Bjórinn var stórgóður eins og von var vísa. Í raun allt sem ég fékk þetta kvöld og það var ekki lítið. Hoptimista, IPA bjórinn þeirra sem var valinn meðal topp 50 bestu bjóra veraldar á Ratebeer var að sjálfsögðu á meðal þess sem ég smakkaði þarna. Ofsalega flottur bjór og á verðlaunin fyllilega skilið en ég var þó hrifnastur af öllum seasonal bjórunum þeirra, léttu súru ávastabjórunum sem voru afar kærkomnir í hitamollunni.
Eftir stutta kinningu á Borg brugghús bauð ég þeim að smakka, við byrjuðum á Úlfi sem Sean var sérstaklega ánægður með enda flaskan bara þriggja vikna gömul og því eins ferskur IPA og þeir gerast. Úlfur minnti Sean talsvert á session IPAinn þeirra Ziggy sem er mjög þægilegur IPA en töluvert minna krefjandi. Leifur var næstur í röðinni en hann olli mikilli lukku meðal nærstaddra og var bragðið krufið til mergjar. Þegar hér var komið sögu viðurkenndu þeir félagar Sean og Robin hálfpartinn að þeir hefðu ekki átt von á svona góðum bjór. Þá dró ég fram Surt 30 og ætlaði allt um koll að keyra þegar ég reyndir að útskýra nafnið og svo innihaldið. Sean hélt vart vatni yfir þessu en hann fékkst næstum ekki til að smakka. Hann gerði það þó fyrir rest og þótti honum bjórinn vandaður og skemmtilegur. Reyndar var þetta rúmlega ársgömul flaska og því taðreykurinn farinn að missa töluvert máttinn sem er miður því ég hefði viljað sjokkera þá enn meira. Við lokuðum svo dæminu með Garúnu og þá var þetta innsiglað, Borg er komið á blað hjá þeim félögum.
Já þetta var skemmtilegt kvöld og áhugavert að heyra frásagnir Seans og hans álit á bjórveröldinni. Við ræddum einnig í gamni að gaman væri að fá þá til Íslands einhvern tímann, og ég bauð þeim meira að segja að gera með mér collab á nano en það þótti of lítið fyrir þá til að ferðin borgaði sig en eftir því sem leið á kvöldið fóru alls konar hugmyndir að hljóma áhugaverðar. Það er bara aldrei að vita hvað gerist í framtíðinni, væri alla vega gaman að sjá bjórinn þeirra á litlu eyjunni okkar.
Bakvísun: Ó Borg mín (eða mitt) Borg! – nano